
Faraldurinn í vexti í Bretlandi – 6 mega koma saman
Á sunnudaginn síðastliðinn greindust næstum 3.000 ný smit, 65 prósentum fleiri en deginum áður, en slíkur fjöldi hefur ekki greinst í Bretlandi frá því í vor. Smitum fjölgar sérstaklega hratt meðal ungs fólks og yfirvöld óttast að þeim fjölgi enn hraðar á næstu vikum þegar skólar hefjast á ný eftir sumarfrí. Samkvæmt bresku hagstofunni hafa 89 undir aldrinum 29 ára látist af völdum COVID-19 frá því faraldurinn hófst í vor.
Boris Johnson forsætisráðherra hefur gefið það út að nýjar samkomutakmarkanir séu „mjög einfaldar“ og að nú standi til að herða viðurlögin við brotum á samkomutakmörkunum. Undantekningar frá sex manna reglunni gilda ef fleiri en 6 búa saman og ef samkomur eru vegna vinnu eða náms. Þá getur fólk fengið undanþágur vegna jarðarfara og brúðkaupa.
Heimastjórnir í Skotlandi, Wales og á Norður-Írlandi hafa heimild til að ákvarða eigin sóttvarnarreglur. Reglurnar eru ekki alveg jafnstrangar þar eins og á Englandi, í Skotlandi mega til dæmis 8 koma saman innandyra og 15 utandyra.