Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Faraldurinn í vexti í Bretlandi – 6 mega koma saman

09.09.2020 - 09:51
epa08525421 A handout photo made available by n10 Downing street shows Britain's Prime Minister Boris Johnson holding a digital Covid-19 press conference in n10 Downing street in London, Britain, 03 July 2020.  EPA-EFE/PIPPA FOWLES HANDOUT This image is for Editorial use purposes only. The Image can not be used for advertising or commercial use. The Image can not be altered in any form. Credit should read Pippa Fowles/n10 Downing street. HANDOUT EDITORIAL USE ONLY/NO SALES
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands. Mynd: EPA-EFE - DOWNING STREET
Smitum hefur fjölgað á ógnarhraða í Bretlandi síðustu daga og á mánudag taka gildi hertar samkomutakmarkanir þar í landi. Þá mega aðeins 6 koma saman, hvort sem það er innandyra eða úti. Hingað til hafa 30 mátt koma saman. Breska ríkisútvarpið greinir frá en Boris Johnson forsætisráðherra gefur út sérstaka tilkynningu um nýjar takmarkanir seinna í dag.

Á sunnudaginn síðastliðinn greindust næstum 3.000 ný smit, 65 prósentum fleiri en deginum áður, en slíkur fjöldi hefur ekki greinst í Bretlandi frá því í vor. Smitum fjölgar sérstaklega hratt meðal ungs fólks og yfirvöld óttast að þeim fjölgi enn hraðar á næstu vikum þegar skólar hefjast á ný eftir sumarfrí. Samkvæmt bresku hagstofunni hafa 89 undir aldrinum 29 ára látist af völdum COVID-19 frá því faraldurinn hófst í vor.  

Boris Johnson forsætisráðherra hefur gefið það út að nýjar samkomutakmarkanir séu „mjög einfaldar“ og að nú standi til að herða viðurlögin við brotum á samkomutakmörkunum. Undantekningar frá sex manna reglunni gilda ef fleiri en 6 búa saman og ef samkomur eru vegna vinnu eða náms. Þá getur fólk fengið undanþágur vegna jarðarfara og brúðkaupa.

Heimastjórnir í Skotlandi, Wales og á Norður-Írlandi hafa heimild til að ákvarða eigin sóttvarnarreglur. Reglurnar eru ekki alveg jafnstrangar þar eins og á Englandi, í Skotlandi mega til dæmis 8 koma saman innandyra og 15 utandyra. 

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV