Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Englendingar óttast að þeir fari í jólaköttinn

09.09.2020 - 22:53
epa00891350 A man dressed as Santa Claus prepares to distribute presents to revellers in a disco bar in Qingdao city, Shandong province, northern China, Sunday 24 December 2006.  EPA/WU HONG
 Mynd: EPA
Englendingar óttast að lítið verði um jólagleði þetta árið vegna COVID-19 heimsfaraldursins. Bresk stjórnvöld kynntu í dag hertar takmarkanir sem fela meðal annars í sér að ekki mega fleiri en sex koma saman í Bretlandi. Bresku blöðin slá því nú upp að jólin kunni að vera í hættu, að ekkert verði af fjölmennum jólaboðum í stórum fjölskyldum ef ekki næst að koma böndum á faraldurinn.

„Forsætisráðherrann uggandi vegna ógnar við jólin,“ stendur á forsíðu The Times á morgunn meðan Daily Mirror slær upp fyrirsögninni: „Fylgið reglunum eða það verður ekkert af jólunum“. „Þar fóru jólin,“ segir Daily Mail einfaldlega.

Mynd með færslu
Forsíða Daily Mail á morgun.

Daily Express hefur eftir forsætisráðherranum að enn gefist tími til að bjarga jólunum meðan The Guardian og Metro tala um hundrað milljarða punda áætlun til að komast hjá algjörri lokun landsins. 

Daily Telegraph sér ekki fram á mikla gleði um jólin.

Mynd með færslu
Forsíða Daily Telegraph á morgun.

Boris Johnson forsætisráðherra greindi frá nýju reglunum í dag. Sex manna samkomubann tekur gildi á Englandi á mánudag. Aðspurður hvort þetta þýddi að fólk yrði að sætta sig við minni samkomur á jólin en það á að venjast svaraði Johnson því til að of snemmt væri að segja nokkuð um það. Hann sagði að lögreglan myndi sjá til þess að fólk virti lög um samkomutakmarkanir.

Sky fréttastofan hefur eftir heimildarmönnum innan breska stjórnkerfisins að nýju samkomutakmarkanirnar verði í gildi í þrjá mánuði hið minnsta. Samkvæmt því verða þær ekki rýmkaðar fyrr en á aðventunni í fyrsta lagi.

Ekki gilda sömu reglur alls staðar á Bretlandi. Í Skotlandi mega allt að átta manns af þremur heimilum hittast innanhúss og fimmtán manns af fimm heimilum utandyra. 30 mega koma saman utandyra í Wales en þar er fólk hvatt að umgangast ekki aðra en sína nánustu innhúss.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV