Dósent sem laug til um uppruna hættir störfum

09.09.2020 - 23:19
Mynd með færslu
 Mynd: Duke University Press - Twitter
Hvít kona sem taldi fólki trú um það árum saman að hún væri þeldökk, ýmist af afrískum eða karabískum uppruna, lét í dag af starfi sem dósent við George Washington háskóla í Washington, höfuðborg Bandaríkjanna. Upp komst um blekkingar Jessicu Krug á dögunum. Hún er sérfræðingur í sögu Afríku og fólks af afrískum uppruna víða um veröld.

Krug hélt því fram að hún tilheyrði sama minnihlutahóp en raunin var að það var tilbúningur hennar. Tilbúningur sem átti til að breytast eftir því við hvern hún ræddi. Þannig sögðu sumir fyrrverandi nemendur Krug að hún hefði sagst vera af norðurafrískum uppruna en aðrir að hún hefði rakið ættir sínar til Karíbahafseyja og enn aðrir að hún hefði stolt lýst Bronx sem æskuslóðum sínum. Hún er hins vegar hvít á hörund. 

Krug lýsti sér sjálf sem menningarlegri blóðsugu. 

Stjórnendur George Washington háskóla hófu rannsókn á máli Krug um helgina.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi