Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Þrír keppast um að verða forsætisráðherra Japans

A public screen shows Japanese Prime Minister Shinzo Abe speaking at a press conference Monday, May 25, 2020, in Tokyo. Abe lifted a coronavirus state of emergency in Tokyo and four other remaining areas on Monday, ending the restrictions nationwide as businesses begin to reopen. (AP Photo/Eugene Hoshiko)
 Mynd: AP
Tilkynnt var með formlegum hætti í morgun að þrír gæfu kost á sér í kjöri Frjálslynda demókrataflokksins á forsætisráðherraefni Japans.

Einn æðsti embættismaður ríkisstjórnar Japans, Yoshihide Suga þykir líklegastur til að verða næsti forsætisráðherra landsins. Hann hefur þegar tryggt sér stuðning margra háttsettra liðsmanna stjórnarflokksins.

En björninn er ekki unninn. Shigeru Ishiba fyrrverandi varnarmálaráðherra er vinsæll meðal almennings og Fumio Kishida er sagður í náðinni hjá Shinzo Abe fráfarandi forsætisráðherra.

Þingmenn flokksins velja milli þeirra 14. september næstkomandi, ásamt þremur fulltrúum flokksins úr hverju 47 héraða Japans.

Frjálslyndir demókratar hafa öruggan meirihluta á Japansþingi og því þykir harla öruggt að frambjóðandi flokksins verði næsti forsætisráðherra. Þingið kýs um hver hreppir embættið 16. september.

Ekki er búist við miklum breytingum á stefnu ríkisstjórnar Japans hver þeirra sem verður fyrir valinu. Þeir muni allir fylgja í fótspor Abes.

Nýr forsætisráðherra þarf að halda uppteknum hætti í baráttunni við kórónuveirufaraldurinn, finna lausnir á efnahagsvanda landsins og tryggja að Ólympíuleikar fari fram í Tókýó næsta sumar.