Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Spenna áfram við landamæri Indlands og Kína

08.09.2020 - 03:22
Erlent · Asía · Deilur og stríð · Indland · Kína · Landamæri · Moskva · Rússland
Mynd með færslu
 Mynd:
Kínverjar segja hermenn sína hafa þurft að grípa til „gagnráðstafana" í gær eftir að indverskir hermenn fóru yfir landamæri ríkjanna í Himalaja-fjöllum og hófu skothríð á landamæraverði.

Deilur ríkjanna um landamærin hafa staðið undanfarna mánuði og eru þær verstu um hálfrar aldar skeið.

Um miðjan júní laust hersveitum þeirra saman og 20 indverskir hermenn lágu í valnum. Ekki er vitað um mannfall Kínverja í þeim átökum. Liðsveitir ríkjanna hafa tekist á nokkrum sinnum síðan í júní.

Atvikið í gær segir talsmaður Kínahers að hafi verið brot á samkomulagi ríkjanna. Indlandsstjórn skyldi kalla hersveitir sínar til baka og rannsaka ástæður þess að þær gripu til vopna.

Bæði ríkin hafa tugi þúsunda hermanna, gráa fyrir járnum, beggja vegna hins umdeilda landsvæðis sem er í fjögurra kílómetra hæð í Himalaja-fjöllum. Utanríkisráðherrar ríkjanna ræddu saman í Moskvu í síðustu viku og gáfu hvor fyrir sig yfirlýsingu að hitt ríkið gerði ekkert nema að espa upp ástandið.