Slá því upp að Warholm muni setja heimsmet í kvöld

epa08620059 Norway's Karsten Warholm poses next to the scoreboard after winning the men's 400m Hurdles race at the Stockholm Diamond League athletics meeting in Stockholm, Sweden, 23 August 2020. Warholm set a new European record time of 46.87 seconds.  EPA-EFE/CHRISTINE OLSSON  SWEDEN OUT
 Mynd: EPA

Slá því upp að Warholm muni setja heimsmet í kvöld

08.09.2020 - 09:29
Norskir fjölmiðlar keppast nú við að slá því upp að norski grindahlauparinn Karsten Warholm muni í kvöld bæta heimsmetið í 400 m grindahlaupi. Warholm sem er tvöfaldur heimsmeistari í greininni og ríkjandi Evrópumeistari og Evrópumethafi, keppir á Alþjóðlegu móti í Ostrava í Tékklandi í kvöld.

Heimsmetið í 400 m grindahlaupi á Bandaríkjamaðurinn Kevin Young, 46,78 sek. sett á Ólympíuleikunum í Barcelona árið 1992, eða fyrir 28 árum síðan. Fyrir tveimur vikum hljóp Warholm í Stokkhólmi á 46,87 sek., eða aðeins níu hundraðshlutum úr sekúndu frá heimsmeti Young. Þá setti Warholm jafnframt Evrópumet.

Norskir fjölmiðlar, og raunar fleiri eru því sannfærðir um það að Warholm muni í kvöld í það minnsta gera aðra harða atlögu að heimsmetinu. Fyrirsögn á vefsíðu norsku sjónvarpsstöðvarinnar TV2 er til dæmis „Svona mun Warholm bæta heimsmetið.“

Með forskot á Young á næstsíðustu grind

Þar má sjá greiningu og samanburð á Warholm og Young. Warholm er þannig sagður hafa betra viðbragð þegar hlaupið er ræst, en Young hafð á sínum tíma. Þegar Young setti heimsmetið í 400 m grindahlaupinu 1992 stóð tíminn í 36,9 sek. þegar hann kom að níundu og næstsíðustu grindinni, til samanburðar var Warholm á 36,8 sek. þegar hann kom að níundu grindinni í Stokkhólmi í ágúst. Miðað við þessu tvö hlaup voru þeir hins vegar báðir á 41,3 sek. þegar þeir komu að tíundu og síðustu grind hlaupsins.

Niðurstaða TV2 virðist sú að það muni ráðast á því hvernig Warholm komi yfir endalínuna í kvöld hvort heimsmetið falli. Þar er veðurspáin í Ostrava fyrir kvöldið einnig skoðuð og hann sagður fá meðvind í upphafi hlaupsins, sem hann gæti notfært sér þegar lengra líður á það.

Hefði ekki ferðast til Tékklands nema hann hefði trú

Í lok umfjöllunar TV2 er svo klikkt út með því að Warholm hefði aldrei ferðast til Tékklands í miðjum heimsfaraldri ef hann hefði ekki tröllatrú á því að hann gæti bætt heimsmetið. Hann sé aðeins í vinnunni, ekki til að skemmta sér.

Miðað við fréttaflutning í Noregi og víðar verður því spennandi að sjá hvort Warholm muni í kvöld bæta heimsmet Kevins Young í 400 m grindahlaupi. Getan og hraðinn er að minnsta kosti til staðar.