Herskáir tónar frá Lundúnum
Áttunda samningalota Evrópusambandsins og Breta er að hefjast og herskáir tónar hafa heyrst frá bresku stjórninni síðustu daga. Aðalsamningamaður Breta, David Frost, sagði að Bretar ætluðu ekki að gefa sig, ESB yrði að breyta afstöðu sinni. Boris Johnson, forsætisráðherra Breta, sagði svo að ef samningur lægi ekki fyrir um miðjan næsta mánuð hættu Bretar viðræðum.
Brot á alþjóðalögum
Fyrirhuguð lög sem meðal annars fjalla um tollamál á Norður-Írlandi brjóta í bága við útgöngusamninginn að mati margra, þar á meðal Sir Jonathan Jones, sem sagði af sér í dag. Hann var æðsti lögfræðingur í breska stjórnkerfinu. Fréttaskýrandi breska ríkisútvarpsins segir ástæðu afsagnar hans vera að hann telji frumvarpið brot á alþjóðalögum.
Ráðherra viðurkennir bort en segir það takmarkað
Ráðherra Norður-Írlandsmála, Brandon Lewis, viðurkenndi í dag í neðri málstofu þingsins að svo væri, frumvarpið bryti alþjóðalög á tiltekinn, takmarkaðan hátt. Bretar ætluðu þó að virða anda útgöngusamningsins.
Frumvarpið gagnrýnt hart
Fyrirhuguð lög sæta mikilli gagnrýni, þannig spurði Theresa May, fyrrverandi forsætisráðherra, hvernig viðsemjendur Breta gætu í framtíðinni treyst því að Bretar stæðu við orð sín.