Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Jafnréttislög ekki brotin við ráðningu útvarpsstjóra

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Hvorki var Kolbrúnu Halldórdóttur fyrrverandi þingmanni og ráðherra né Kristínu Þorsteinsdóttur fyrrverandi ritstjóra Fréttablaðsins og áður fréttamanni á RÚV mismunað þegar Stefán Eiríksson var ráðinn í starf útvarpsstjóra

Þa er niðurstaða kærunefndar jafnréttismála. Kjarninn greindi fyrst frá þessu. Konurnar kærðu RÚV hvor í sínu lagi til kærunefndarinnar. Þær álitu að ráðning karlmanns í stöðuna hefði brotið gegn lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna ásamt lögum um jafna meðferð á vinnumarkaði.

Niðurstaða kærunefndarinnar er að reglur almenns vinnumarkaðar gildi um réttarstöðu starfsmanna opinberra hlutafélaga. Reglur opinbers starfsmannaréttar og reglur stjórnsýsluréttar eigi ekki við.

Hvorug kvennana, segir í úrskurðum nefndarinnar, töldust hafa getað leitt líkur að því að þeim hefði verið mismunað við ráðninguna. Nefndin gerði þó aðfinnslur við mat RÚV á menntun þeirra og í mats­flokknum „fjöl­miðl­un, menn­ing­ar- og sam­fé­lags­mál“.

Kolbrún og Kristín voru meðal 41 umsækjanda um starf útvarpsstjóra og voru meðal þeirra nítján sem komust í starfsviðtal. Kolbrún var ein þeirra fjögurra sem ákveðið var að undirgengjust persónuleikapróf en Kristín var ekki þar á meðal.

Stefán Eiríksson sem þá var borgarritari Reykjavíkur var ráðinn útvarpsstjóri í janúar síðastliðnum.

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV