Djokovic vísað úr keppni fyrir að slá bolta í dómara

epaselect epa08651640 Novak Djokovic of Serbia (R) tries to help a linesperson after hitting her with a ball in the throat during his match against Pablo Carreno Busta of Spain on the seventh day of the US Open Tennis Championships at the USTA National Tennis Center in Flushing Meadows, New York, USA, 06 September 2020. Djokovic was defaulted from tournament. Due to the coronavirus pandemic, the US Open is being played without fans and runs from 31 August through 13 September.  EPA-EFE/JASON SZENES
 Mynd: EPA-EFE - EPA

Djokovic vísað úr keppni fyrir að slá bolta í dómara

07.09.2020 - 07:22
Serbinn Novak Djokovic sem þótti sigurstranglegastur í einliðaleik karla á Opna bandaríska meistaramótinu í tennis var vísað úr keppni í gærkvöld. Djokovic keppti við Spánverjann Pablo Carreno Gusta í 4. umferð og í pirringi sínum þegar illa gekk hjá Serbanum sló hann boltanum frá sér. Boltinn fór hins vegar beint í andlit á línudómara.

Þó Djokovic hafi ekki ætlað sér að hitta línudómarann var honum engu að síður vísað úr keppni. Reglurnar kveða nefnilega skýrt á um það. Djokovic sem er einn sigursælasti tennisleikari allra tíma hefur unnið Opna bandaríska meistaramótið þrisvar, síðast 2018 og stefndi að sínum fjórða meistaratitili. Atvikið í gærkvöld kom hins vegar í veg fyrir það.

Djokovic sendi svo frá sér yfirlýsingu á samfélagsmiðlum þar sem hann biðst afsökunar á atvikunu. Þar gerir hann líðan línudómarans að umræðuefni sínu og segist hafa athugað með hana strax og hann sá að boltinn hefði hæft hana. Þá segist Djokovic harma það innilega að hafa sett línudómarann í þessa stöðu.

Novak Djokovic er efstur á heimslista karla í tennis. Hann hefur samtals unnið 17 ristatitla í tennis og var í góðri stöðu að bæta þeim átjánda við þar sem bæði Roger Federer og Rafael Nadal mættu ekki til leiks á Opna bandaríska meistaramótið í ár vegna COVID-19.

Aðeins Federer (20) og Nadal (19) hafa unnið fleiri risamót í tennis í einliðaleik karla en Djokovic. Busta, Spánverjinn sem dæmdur var sigur á móti Djokovic í 4. umferðinni í gærkvöld mætir hinum kanadíska Dennis Shapovalov í átta manna úrslitum.