Útgöngubann áfram í Melbourne

epa08529864 People in hazardous material overalls are seen outside of a public housing tower along Racecourse Road in Melbourne, Australia, 06 July 2020. Victoria?s Premier has ordered the immediate lockdown of nine public housing towers in Flemington and North Melbourne after the state registered 108 new coronavirus cases.  EPA-EFE/JAMES ROSS AUSTRALIA AND NEW ZEALAND OUT
 Mynd: EPA-EFE - AAP
Strangt útgöngubann í Melbourne í Ástralíu verður framlengt um tvær vikur. Þetta tilkynntu yfirvöld í dag. Nýjum tilfellum Covid-19 hefur ekki fækkað nóg til að unnt sé að slaka á.

Nú þegar hafa íbúar borgarinnar mátt þola útgöngubann í sex vikur sem til stóð að aflétta að nokkru um helgina.

Daniel Andrews ríkisstjóri Viktoríuríkis býst við að útgöngubannið gildi til 28. september næstkomandi. Hann segir að verði gefið eftir of fljótt sé líklegt að mjög seint verði hægt að aflétta útgöngubanni að fullu.

Daginn áður en tilkynnt var um framlengingu útgöngubanns var á annan tug andstæðinga þess handtekinn við mótmæli í borginni. Kenningar eru uppi um að viðbrögð yfirvalda við faraldrinum séu úr öllu hófi eða hreinlega svikamylla.

Í dag greindust 63 ný smit í Viktoríufylki og fimm andlát. Dagleg smit voru yfir 700 þegar faraldurinn reis sem hæst en heilbrigðisyfirvöld segjast vilja fara að öllu með gát.

Í Ástralíu allri hafa rúmlega 26 þúsund kórónuveirusmit greinst og 753 andlát verið tilkynnt. Meirihluti þeirra eiga uppruna sinn í Melbourne en á öðrum svæðum Ástralíu hefur tekist að koma böndum á faraldurinn.

Örlitlar tilslakanir taka gildi í Melbourne 13. september næstkomandi. Tíminn sem fólki er gert að halda sig heima kvöld og nætur verður styttur um klukkustund og tími til hreyfinga og líkamsræktar verður lengdur um tvær.

Auk þess stendur til að skapa öruggt rými fyrir einbúa til að hitta annað fólk . Fari dagleg smit undir fimmtíu fyrir mánaðamót verða barnaheimili opnuð að nýju og fimm mega koma saman utandyra.

Hraðar verður slakað á kröfum utan Melbourne þar sem tiltölulega fá ný smit hafa greinst þar.

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi