Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Handteknir við að afhenda „Hamasliða“ vopnabúnað

05.09.2020 - 00:29
epa04538195 The logo of the Federal Bureau of Investigation (FBI) at the J. Edgar Hoover FBI Building in Washington DC, USA, 22 December 2014.  EPA/MICHAEL REYNOLDS
 Mynd: EPA - EPA
Tveir Bandaríkjamenn á þrítugsaldri hafa verið handteknir og ákærðir eftir að þeir létu manni sem þeir héldu fulltrúa Hamas-samtakanna hljóðdeyfa og annan búnað fyrir byssur í té.

Mennirnir, Michael Solomon og Benjamin Teeter, viðurkenna að þeir tilheyri óformlegum öfga-hægri samtökum sem ganga undir heitinu Boogaloo Bois.

Samtökin voru lítt kunn þar til meðlimir þeirra urðu áberandi í mótmælum vestra í kjölfar dauða Georges Floyd. Þar beittu þeir öllum brögðum til að lenda í útistöðum við lögreglu.

Sá sem þeir Teeter og Solomon afhentu vopnabúnaðinn var alríkisfulltrúi sem þóttist vera háttsettur Hamas-liði. Hamas ráða ríkjum á Gaza-svæðinu og viðurkenna ekki tilvist Ísraelsríkis. Bæði Bandaríkjastjórn og stjórn Ísraels álíta Hamas vera hryðjuverkasamtök.

Yfirlýst markmið Boogaloo samtakanna er að efna til nýrrar borgararstyrjaldar í þeim tilgangi að fella ríkisstjórn Bandaríkjanna.