Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Smit í Fossvogsskóla

04.09.2020 - 12:17
Fossvogsdalur, útivistarsvæði, útivist, göngustígar, leiktæki, hjólastígar. Leiksvæði.
 Mynd: Reykjavíkurborg - Aðsend mynd
Starfsmaður í eldhúsi í Fossvogsskóla greindist smitaður af COVID-19 í gær. Allir starfsmenn eldhússins eru í sóttkví en ekki er talin hætta á að börn eða kennarar hafi smitast. Þetta segir Ingibjörg Ýr Pálmadóttir skólastjóri í samtali við fréttastofu.

„Við vinnum náið með smitrakningarteyminu og skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar,“ segir Ingibjörg. Allir foreldrar voru upplýstir um smitið með tölvupósti í gærkvöldi og eldhúsið hefur verið sótthreinsað.  Í dag sinna aðrir starfsmenn skólans matreiðslu og næstu daga verður svo fengið fyrirtæki til að sjá um matinn. 

Sá sem greindist í gær var í vinnu á mánudag og þriðjudag en ekki á miðvikudag. Ingibjörg segir að starfsfólk í eldhúsi sé alltaf með grímur og hanska og því sé ekki talin hætta á að smit hafi borist með matvælum til barna eða starfsfólks.