Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Sjö lögreglumenn reknir vegna dauða manns í mars

Mynd með færslu
 Mynd: CC0 - Pixabay
Sjö lögreglumönnum í Rochester í Bandaríkjunum var vikið úr starfi í gær eftir birtingu myndskeiðs sem sýndi mann deyja við handtöku.

Atvikið átti sér stað í mars síðastliðnum. Fréttastofa Reuters greinir frá því að Lovely Warren borgarstjóri í Rochester segi að um rasískan verknað hafi verið að ræða. Hún biðst afsökunar á því að kerfið og hún sjálf hafi brugðist Daniel Prude.

Prude var handtekinn í borginni 23. mars þar sem hann vafraði nakinn um götur. Talið er að hann hafi kafnað eftir að hetta var sett yfir höfuð hans sem ætlað var að koma í veg fyrir að hann hrækti á lögreglumennina sem handtóku hann.

Joe Prude bróðir Daniels hafði kallað eftir aðstoð lögreglu því hann óttaðist um öryggi hans vegna andlegra veikinda sem hann glímdi við. Joe Prude kveðst hafa verið að biðja um hjálp bróður sínum til handa. Það hefði ekki hvarflað að honum að sú beiðni yrði til þess að hann yrði tekinn af lífi.

La'Ron Singletary lögreglustjóri í Rochester segir rannsókn á málinu hafna innan lögregluembættisins auk þess sem það væri rannsakað sem afbrot. Mótmæli brutust út í borginni á miðvikudag þar sem níu voru handtekin.

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV