Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Hvassviðri fyrir austan – „Ég get varla opnað dyrnar“

04.09.2020 - 10:09
Innlent · Austfirðir · Hvassviðri · Rok · Veður
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Vindhviður í Álftafirði í Djúpavogshreppi ná allt að 40 metrum á sekúndu. Halldór Hannesson verkfræðingur er staddur á Hærukollsnesi og hafði samband við fréttastofu til að vara fólk við því að ferðast þar um fjallvegi á stórum bílum eða með aftanívagna. Á Austfjörðum er nú í gildi gul veðurviðvörun.

„Hérna eru 25-30 metrar á sekúndu stöðugt en í hviðunum fer þetta upp undir 40 m/s,“ segir hann í samtali við fréttastofu. Hvassviðri sem þetta sé ekki óvenjulegt á svæðinu en nú séu margir á ferðinni á stórum bílum og með húsvagna.

„Skriðurnar hérna fyrir sunnan mig, Þvottárskriður og Hvalnesskriður, þar eru dálítið hættulegir vegir. Það má náttúrulega ekkert koma fyrir svona bíla þar, þá er bara húrrandi fjallið og niður í sjó. En það eru kannski ýmsir að koma frá Seyðisfirði sem ekki þekkja til,“ segir Halldór. Hann bætir við að bílar hafi margoft fokið á svæðinu. „Og sjálfur hef ég skoppað hérna um hlaðið í vindhviðum, meira að segja á sumrin,“ segir hann og hlær.  

Halldór segir að það hafi tekið að hvessa allhressilega í gærkvöldi og verið hvasst í alla nótt. „Og samkvæmt veðurspá á þetta að vera svipað þessu í allan dag og draga svo úr vindi í nótt,“ segir hann. Aðspurður hvort hann sjái fyrir sér að halda sig heima í dag segist hann gera það: „Ég get varla opnað dyrnar.“