Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Bandarískur dósent laug til um uppruna sinn árum saman

04.09.2020 - 03:32
Mynd með færslu
 Mynd: Duke University Press - Twitter
Dósent við bandarískan háskóla hefur viðurkennt að hafa um árabil þóst vera svört. Jessica Krug starfar við George Washington háskólann sem sérfræðingur í sögu Afríku og Afríkufólks um víða veröld og er í raun hvítur gyðingur.

BBC hefur eftir Krug að líf hennar hafi snúist um að ljúga til um hver hún væri en sem aðgerðarsinni kallaði hún sig Jessicu La Bombalera.

Fyrir nokkrum árum lést Bandaríkjakonan Rachel Dolezal vera af afrískum uppruna. Hún barðist fyrir réttindum þeldökkra og sinnti formennsku í samtökum sem berjast gegn kynþáttamisrétti. Mál Dolezal komst í hámæli árið 2015 en hún kvaðst upplifa sig sem svarta konu.

Jessica Krug segist hafa haldið fram uppruna sem hún ætti ekkert tilkall til, en hún sagðist ýmist eiga rætur að rekja til Norður-Afríku eða Karíbahafs. Krug hefur ekki enn útskýrt hvers vegna hún ákvað að hætta blekkingarleiknum en hún segir hegðun sína birtingarmynd þess ofbeldis og skopstælingar sem þeldökkir hafi mátt þola af hálfu hvítra.

Hún fullyrðir að hún hafi orðið fyrir áföllum á yngri árum sem ollu henni andlegri vanlíðan og orðið til þess að hún tók á sig það gervi sem hún hefur nú fellt. Það afsaki þó ekki hegðun hennar.

Ekki hefur enn verið tekin ákvörðun um hvort uppljóstrun Jessicu Krug hafi áhrif á framtíð hennar við George Washington háskólann.