Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Aflétting skref í rétta átt fyrir menningarstarf

04.09.2020 - 15:00
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Tilslökun á samkomubanni er skref í rétta átt, að mati leikhússtjóra Þjóðleikhúss og Borgarleikhússins, en þýðir þó ekki að hægt verði að hefja sýningar strax á fjölum leikhúsanna án takmarkana. Vonir standa þó til að hægt verði að slaka frekar á takmörkunum á næstu vikum.

Í síðustu viku gátu leikarar æft með snertingu í fyrsta sinn síðan faraldurinn braust út. Eins metra regla í stað tveggja metra reglu felur þó enn í sér takmarkanir á því hversu þétt áhorfendur geta setið í sölum leikhúsanna. Magnús Geir Þórðarson, þjóðleikhússtjóri fagnar afléttingunni, hún sé skref í rétta átt, en vonast til að frekari tilslakanir séu í farvatninu. 

„Við höfum verið í samskiptum við yfirvöld og trúum því að það sé stefnt að þessu, en að sjálfsögðu eru það yfirvöld sem taka ákvörðun um hvað sé öruggt og traust, en við vonumst eins og allir landsmenn að þetta sé að þokast í rétta átt.“ segir Magnús.

Brynhildur Guðjónsdóttir, Borgarleikhússtjóri segir afléttinguna jákvæða. Fyrst verk haustsins verður frumsýnt í Borgarleikhúsinu 18. september. Þar verður hægt að taka á móti 75 gestum í stað 60. 
Magnús segir ýmislegt vera til skoðunar í Þjóðleikhúsinu, til að mynda að sýna aðeins fyrir börn.

„Já það er að sjálfsögðu hægt  að vera með sýningar eingöngu fyrir börn, en við auðvitað vonumst til þess að börn geti komið í leikhúsin með  fjölskyldum sínum og upplifað Kardimoimmubæinn sem er sannkölluð fjölskylduskemmtun saman freka en að það séu bara börnin sem koma í leikhúsin, en það sem við erum að vinna að núna miðar við að samkomutakmörkunum verði aflétt í þrepum og við vonumst til að geta tekið á móti leikhúsgestum með hefðbundnum hætti áður en á löngum líður.“ segir Magnús.

Rætt verður við Brynhildi Guðjónsdóttur Borgarleikhússtjóra í Speglinum klukkan.