Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Kosningasjóðir forsetaframbjóðendanna tútna út

Mynd með færslu
 Mynd: Samsett RÚV - AP/EPA
Forsetaframbjóðendur stóru flokkanna í Bandaríkjunum, þeir Donald Trump og Joe Biden, eru iðnir við að safna í kosningasjóði sína.

Biden, frambjóðandi Demókrataflokksins, náði að safna 364 milljónum Bandaríkjadala í ágúst. Það er jafnvirði ríflega 50 milljarða íslenskra króna. Meira en helmingur þess fjár kemur úr vösum fólks sem leggur fram lágar fjárhæðir á Netinu að sögn kosningateymis Bidens.

Tilnefning Kamölu Harris sem varaforsetaefni Bidens hleypti miklum krafti í fjársöfnun framboðsins. Strax fyrsta sólarhringinn bættust 26 milljónir dala í kosningasjóð hans.

Þetta er hæsta fjárhæð sem forsetaframbjóðandi hefur safnað á einum mánuði. Fyrra metið var 200 milljónir dala sem safnaðist í sjóð Baracks Obama árið 2008 ef marka má samantekt CBS og New York Times.

Í júlí stækkaði sjóður Donalds Trump og Repúblikana um 165 milljónir dala en Demókratar fengu 140 milljónir. Kosningasjóður Trumps er þó enn sagður digrari en keppinautarins.

Biden segir peningamaskínu forsetans vinna af krafti, fyllta því sem hann kallar utanaðkomandi, skuggalega fjármuni.