Fjögur innanlandssmit - helmingur í sóttkví

03.09.2020 - 11:12
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Rúnar Ingi Garðarsson - RÚV
Fjögur ný kórónuveirusmit greindust innanlands í gær. Í gær voru þau fimm og einnig í fyrradag. Tveir þeirra sem greindust voru ekki í sóttkví. Níutíu og sex eru í einangrun hér á landi með COVID-19. Enginn greindist með virkt kórónuveirusmit á landamærunum í gær en þrír bíða eftir niðurstöðum mótefnamælingar við landamærin.

Þeim fækkar sem eru í sóttkví og eru nú 612 manns, miðað við 720 í gær og 848 í fyrradag. Enginn er á sjúkrahúsi með COVID-19 hér á landi sem stendur. 96 eru í einangrun.

Tekin voru 1.981 sýni í gær; 518 svokölluð einkennasýni á vegum veirufræðideildar Landspítala og Íslenskrar erfðagreiningar, 1.372 sýni voru tekin á landamærunum og 91 sýni sem tekin voru á vegum Íslenskrar erfðagreiningar eru skráð sem „önnur skimun“.

Nýgengi innanlandssmita, það eru samanlagður fjöldi smita síðustu 14 daga á hverja 100.000 íbúa, hefur aukist síðan í gær og er nú 17,7 smit. Nýgengi smita við landamærin hefur einnig aukist og er 7,6 smit.

Nú eru þrír landshlutar lausir við veiruna. Ekkert virkt smit er á Austurlandi, Norðurlandi vestra og Vesturlandi. 

 
annalth's picture
Anna Lilja Þórisdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi