Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Trump segir Biden stjórnað af skuggaverum

epa08638063 US President Donald J. Trump speaks during a news conference in the James S. Brady Press Briefing Room at the White House in Washington, DC, USA, 31 August 2020.  EPA-EFE/Al Drago
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Joe Biden er stýrt af fólki sem heldur sig í dimmum skugga að sögn Donald Trump Bandaríkjaforseta. Þetta sagði hann í sjónvarpsviðtali við Fox fréttastöðina sem var birt í gærkvöld. 

Fullyrðing Trump var svar hans við spurningu Lauru Ingraham um hver hann héldi að togaði í strengi Bidens. Hún spurði hvort það væru þeir sömu og unnu með Barack Obama, forvera Trumps. Svar Trumps var að honum væri stjórnað af fólki sem hún hafi aldrei heyrt af, fólki sem haldi sig í dimmum skugga. Ingraham spurði hann hvað þetta þýddi eiginlega. „Þetta hljómar eins og samsæriskenning. Dimmir skuggar. Hvað er það?" Spurði Ingraham. Trump sagði fólk vera úti á götu sem stjórni því sem er að gerast á götunni. 

Dökkklæddir fantar um borð í flugvél

Í beinu framhaldi greindi Trump svo frá því að dökkklæddir fantar hafi farið um borð í flugvél í ákveðinni borg um helgina. Þeir hafi verið vel búnir og alls konar. Ingraham, hissa, bað hann um að útskýra þetta frekar. Þá sagðist hann ekki geta það þessa stundina þar sem málið væri í rannsókn. Síðar sagði hann þó að hann hafi heyrt þetta frá einhverjum sem kom á landsfund Repúblikanaflokksins. Sá hafi sagst hafa séð fullt af fólki fara um borð í flugvél til þess að valda miklum skaða. 

Trump til Kenosha í dag

Trump er væntanlegur til borgarinnar Kenosha í Wisconsin í dag. Þar ætlar hann að tala við lögreglu og líta á skemmdir á mannvirkjum eftir hörð mótmæli í borginni í kjölfar þess að svartur maður var skotinn sjö sinnum í bakið af lögreglumanni. Ríkisstjórinn Tony Evers hefur beðið forsetann um að sleppa því að fara til borgarinnar. Hann óttast að heimsókn Trump eigi eftir að hella olíu á eldfimt ástandið. Unglingsdrengur frá nágrannaríkinu Illinois fór yfir ríkismörkin í síðustu viku til þess að aðstoða lögregluna. Hann mætti vígbúinn, varð tveimur að bana með byssu sinni og særði einn til viðbótar. 

Forsetinn var spurður á blaðamannafundi í gær hvort hann ætlaði að fordæma verknað unglingspiltsins. Þar sagðist hann vera að fara yfir málið. Kringumstæður hafi verið áhugaverðar, miðað við það sem hann hafi séð hafi hann verið að reyna að flýja þegar ráðist er á hann og mögulega hafi hann skotið frá sér og drepið fólkið í sjálfsvörn. „Ég hugsa að hann hafi verið í miklum vandræðum, hann hefði sennilega verið drepinn." Unglingurinn, Kyle Rittenhouse, hefur verið ákærður sem fullorðinn maður fyrir morð. 

„Stuðningsmenn ykkar skutu ungan mann og drápu“

Um helgina var yfirlýstur stuðningsmaður Trump drepinn úti á götu í borginni Portland í Oregonríki. Þar hafa verið mikil mótmæli síðustu þrjá mánuði, eða allt frá því blökkumaðurinn George Floyd var drepinn af lögreglumanni í Minneapolis í maí. Líkt og síðsutu laugardaga óku stuðningsmenn Trump í gegnum miðborg Portland. Nú mættu þeir vopnaðir litboltabyssum og piparúða og notuðu gegn mótmælendum á götum Portland. Trump segir stuðningsmenn sína hafa látið friðsamlega og málning sé ekki byssukúla. „Stuðningsmenn ykkar," sagði hann svo og beindi orðum sínum að fjölmiðlum, „skutu ungan mann og drápu. Það þykir mér ógeðfellt," sagði Trump.