Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Tölvuþrjótar komust í tölvupóst norskra þingmanna

01.09.2020 - 15:38
Mynd með færslu
Norska Stórþingið. Mynd úr safni. Mynd: Stortinget Oslo - Wikipedia Commons
Tölvuþrjótar brutust inn í tölvukerfi norska Stórþingsins á dögunum. Þeir komust inn í tölvupóst nokkurra þingmanna. Ekki er vitað hverjir stóðu að baki glæpnum og hefur málið verið tilkynnt lögreglu.

Umfangsmikil árás var gerð á tölvukerfi norska Stórþingsins á dögunum og var greint frá henni í tilkynningu frá þinginu í dag. Tölvuþrjótunum tókst að hlaða niður efni úr tölvupósthólfum nokkurra þingmanna og starfsmanna þingsins. Ekki er vitað hverjir voru að verki en ljóst að töluverðu magni af gögnum var stolið. Málið hefur verið tilkynnt til lögreglu.

Skrifstofustjóri Stórþingsins, Marianne Andreassen, sagði við fréttamenn í dag að grunur hefði vaknað um að ekki væri allt með felldu fyrir rúmri viku og að strax hefði verið gripið til viðeigandi ráðstafana.

Árlega er gert áhættumat fyrir þingið. Það var síðast gert í febrúar og þá varaði norska öryggislögreglan, PST, við því að stöðug hætta væri af mögulegum tölvuglæpum. Þeir næðu yfir landamæri og að illkvittnir þrjótar gætu valdið miklum skaða fyrir innviði sem og fyrirtæki í Noregi.