Maduro náðar stjórnarandstæðinga

01.09.2020 - 02:36
epa08324861 (FILE) - Venezuelan President Nicolas Maduro speaks during a press conference in Caracas, Venezuela, 12 March 2020 (reisuued 26 March 2020). US Attenorney General Barr on 26 March 2020 announced the US had charged president Maduro and other Venezuelan officials with crimes related to drug-trafficking.  EPA-EFE/Miguel Gutierrez
Nicolas Maduro. Mynd: EPA-EFE - EFE
Yfir hundrað stjórnarandstöðuþingmenn og aðstoðarmenn stjórnarandstöðuleiðtogans Juan Guaido voru náðaðir í gær af Nicolas Maduro, forseta Venesúela. Var það gert til þess að leita þjóðarsáttar segir í yfirlýsingu stjórnvalda. Guaido sjálfur var ekki meðal þeirra sem voru náðaðir.

Meðal hinna náðuðu var aðstoðarmaður Guaido sem var handtekinn í mars í fyrra vegna gruns um að hann væri í hryðjuverkasamtökum sem væru að skipuleggja árás til þess að veikja stöðu stjórnvalda. Eins var stjórnarandstöðuþingmaðurinn Freddy Guevara náðaður. Hann leitaði skjóls í sendiráði Síle í Caracas árið 2017 eftir að hann leiddi mótmæli gegn stjórnvöldum. 125 létust í mótmælunum. Hæstiréttur bannaði honum að fara úr landi.

Eina leiðin til friðar að Maduro láti af völdum

Stjórnarandstæðingar eru ekki alveg á þeim buxunum að þetta sé leiðin fyrir Maduro til að leita sátta. Stjórnarandstöðuþingmaðurinn Americo De Grazia, sem er í útlegð, segist ekki vera glæpamaður frekar en að Maduro sé forseti. Eina leiðin fyrir Maduro til að stilla til friðar í Venesúela sé að láta af völdum.

Stjórnarandstaðan lítur á Maduro sem valdaræningja eftir kosningarnar árið 2018, sem margir töldu sviksamar. Guaido ögraði völdum Maduro í janúar í fyrra með því að lýsa sjálfan sig rétt kjörin forseta. Hann hlaut viðurkenningu yfir 50 vestrænna ríkja.

Stjórnvöld hafa boðað til þingkosninga í Venesúela í desember. Helstu stjórnarandstæðingar hafa þegar lýst því yfir að þeir ætli að sniðganga þær. Þeim þykir grunsamlegt að kjörstjórn sé skipuð af hæstarétti, en ekki af þingmönnum þjóðþingsins eins og venjan er. Stjórnarandstæðingar eru í meirihluta þingmanna þar. 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi