Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

„Röng efnahagsleg viðbrögð geta lengt kreppuna“

Mynd: RÚV - Samsett / RÚV - Samsett
Þrátt fyrir að samdráttur í landsframleiðslu á öðrum ársfjórðungi hafi aldrei mælst meiri hér á landi, þá hefði verið hægt að búast við enn meiri samdrætti. Þetta segir Þórólfur Matthíasson, prófessor í hagfræði. 

Landsframleiðsla á öðrum ársfjórðungi dróst saman um 9,3%, borið saman við sama tímabil í fyrra, samkvæmt tölum Hagstofunnar. Einnig var samdráttur á fyrsta ársfjórðungi, en almenn skilgreining á kreppu er þegar landsframleiðsla dregst saman tvo ársfjórðunga í röð. Samkvæmt því má segja að hagkerfið á Íslandi sé nú komið í kreppu, vegna afleiðinga COVID-19.

„Þetta er nú í samræmi við það sem var vitað þegar fór að verða ljóst hversu umfangsmikil áhrif sóttin hefði á ferðalög og viðskipti vítt og breitt um heiminn,“ segir Þórólfur. 

 

„Tekist ágætlega að vinna úr vondri stöðu“

Hagstofan bendir á að þó samdrátturinn á Íslandi sé sögulega mikill, benda fyrstu niðurstöður alþjóðlegs samanburðar til að samdrátturinn hafi víða verið umtalsvert meiri. Þannig mældist samdráttur í Bretlandi ríflega 20%, 18,5% á Spáni og nærri 14% í Frakklandi. 

Þórólfur segir að þar sem Ísland sé svo háð ferðamennsku og þjónustu við ferðamenn, hefði verið hægt að búast við dýpri lægð og samdráttur væri svipaður þeim sem hefur átt sér stað í þessum löndum. 

„En ástandið hjá okkur er umtalsvert betra en í þessum löndum. Þar má þakka viðbrögðum stjórnvalda, bæði við farsóttinni og eins þeim efnahagslegu aðgerðum sem hefur verið gripið til. Þannig að það má segja að það hafi tekist ágætlega að vinna úr vondri stöðu. Þessar tölur, ef við berum þær saman við það sem gerist annars staðar, sýna það ágætlega,“ segir Þórólfur.

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Samdráttur í einkaneyslu mældist 8,3%

Það er kórónuveiran sem stjórnar

Alls dróst landsframleiðslan á fyrstu sex mánuðum ársins saman um 5,7%, samanborið við sama tíma í fyrra. Þórólfur segir ekki hægt að leggja mat á það hversu langvinnur þessi samdráttur verður.

„Við vitum að það er kórónuveiran og hversu vel mönnum gengur að kljást við hana, sem ræður því. Ekki bara hvenær hægt verður að opna þjóðfélagið, heldur líka hvenær fólk er tilbúið til þess að ferðast og blanda geði við mann og annan. En það sem er hægt að segja er að röng efnahagsleg viðbrögð geta lengt kreppuna, þar er það sem ég get sagt. 

Stjórnvöld hafa hingað til haft svolítið augun á því að það yrði ekki raunin, og vonandi gengur þeim vel að halda kúrsinum hvað það varðar,“ segir Þórólfur Matthíasson, prófessor í hagfræði.