Heilbrigðisstarfsfólk við sýnatökur í Melbourne 18. ágúst. Mynd: EPA-EFE - AAP
Sjötíu og þrír greindust smitaðir af kórónuveirunni í Viktoríuríki í Ástralíu síðasta sólarhring, en ekki hafa færri greinst þar smitaðir í næstum tvo mánuði eða síðan 3. júlí.
Þá var tilkynnt um ríflega fjörutíu dauðsföll af COVID-19 í Viktoríu, en helmingurinn er uppsafnaðar tölur frá hjúkrunarheimilum í ríkinu. Í höfuðstaðnum Melbourne hefur verið útgöngubann undanfarnar vikur um kvöld og nætur og er nú að hefjast fjórða vikan af sex þar sem útgöngubann verður þar í gildi.
Alls hafa nærri 26.000 greinst smitaðir af kórónuveirunni í Ástralíu síðan faraldurinn barst þangað, en ríflega 650 hafa látist úr COVID-19.