Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Afbrotahrina í Grímsey

31.08.2020 - 13:06
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - ÁÓL
Grímseyingar hafa fengið sig fullsadda af afbrotum og skemmdarverkum sem lengi hafa verið stunduð í eyjunni. Brotist hefur verið inn í íbúðarhús og báta í höfninni og verðmætum stolið.

Íbúi í Grímsey sem fréttastofa hefur rætt við segir að svona hafi þetta verið af og til í um fjögur ár. Hann segir ástandið hafa verið mjög slæmt upp á síðkastið og nefnir um tíu atvik á síðustu vikum.

Verðmætum stolið úr íbúðarhúsum og bátum

Grímseyingar hafi fengið sig fullsadda af þessu, fólk sé óttaslegið og hrætt um eigur sínar. Ítrekað hafi verið farið inn í íbúðarhús þegar fólk er ekki heima og stolið þaðan verðmætum. Þá hafi verið brotist inn í báta í höfninni.

Eignaspjöll kærð til lögreglu

Tveir karlmenn eru grunaðir um afbrotin. Tvær kærur hafa verið lagðar fram. Íbúi í Vestmannaeyjum kærði til lögreglunnar þar, um miðjan ágúst, tjón sem unnið var á bíl í eigu hans í Grímsey. Þá staðfestir Guðjón Helgason, upplýsingaflulltrúi Isavia, að fyrirtækið hafi kært til lögreglunnar á Norðurlandi eystra eignaspjöll sem unnin voru á flugvellinum í Grímsey aðfaranótt 25. júlí.

Vonast til að lögregla grípi til aðgerða

Íbúinn sem rætt var við og vill ekki láta nafn síns getið segist hafa átt fundi með lögreglu út af þessu máli og hann vonast til að gripið verði til aðgerða sem fyrst.