Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Sinfóníuhljómsveitin í sýnatöku í dag 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Allir hljóðfæraleikarar Sinfóníuhljómsveitar Íslands fara í sýnatöku í dag. Fyrsta tónleikavika starfsársins hefst á mánudag og Íslensk erfðagreining hefur fallist á að skima hljóðfæraleikara og annað starfsfólk hljómsveitarinnar í sóttvarnarskyni. Lára Sóley Jóhannsdóttir framkvæmdastjóri Sinfóníuhljómsveitarinnar segir í samtali við fréttastofu að í framhaldinu verði skoðað hvort starfsfólk verður skimað reglulega.  

Fara að erlendum fyrirmyndum 

„Við erum að fylgjast mikið með því hvað aðrar hljómsveitir í Evrópu eru að gera. Hljómsveitir í Danmörku og Austurríki eru til dæmis að skima með reglubundnum hætti og við erum meðal annars að horfa til þeirra fyrirmynda. Við viðruðum hugmyndina um sýnatöku við Íslenska erfðagreiningu, því framundan er fyrsta stóra æfingavikan. Svo kom bara í ljós núna fyrir þremur dögum að við myndum ná að skipuleggja þetta,“ segir Lára Sóley. Algjört forgangsatriði sé að tryggja heilsu og öryggi starfsfólks.   

Ekki er lengur gerð krafa um að hljóðfæraleikarar haldi tveggja metra bili á milli sín. Í vor þurfti að tryggja að tveggja metra reglunni væri fylgt á sviðinu og því komust mun færri hljóðfæraleikarar fyrir en venjulega. Lára segir að hljómsveitin fari hægt í að minnka bilið. „Við ætlum ekki að þétta hópinn eins mikið og mögulegt er. Við færum okkur aðeins nær en höldum áfram bili,“ segir hún. Áfram verður ekki hægt að hafa alla hljómsveitina á sviðinu í einu, því verði tíminn notaður til að „horfa inn á við og æfa í minni hópum“. Þá haldi hljómsveitin sennilega minni viðburði samhliða vikulegum sjónvarpstónleikum. 

Enn óvíst hvenær verða áheyrendur í Eldborg 

Lára segir að Sinfóníuhljómsveitin kynni nýtt starfsár á vef hljómsveitarinnar í dag. Í september séu fyrirhugaðir vikulegir sjónvarpstónleikar en ef til afléttinga á samkomutakmörkunum komi verði vonandi hægt að bjóða fólki í salinn. Hún segir að starfsárið fari vel af stað: „Blásarar og slagverksleikarar hafa nú þegar spilað fyrir hátt í þúsund leikskólabörn á torgum.“