
Macron óttast borgarastyrjöld í Líbanon
Gríðarleg sprenging varð í Beirút, höfuðborg Líbanon, fyrr í mánuðinum sem lagði hluta borgarinnar í rúst og skyldi um þrjú hundruð þúsund manns eftir heimilislaus. Mikil reiði er meðal almennings í landinu yfir því að tæp þrjú þúsund tonn af ammoníum-nítrati hafi verið geymd á hafnarsvæðinu árum saman, þrátt fyrir viðvaranir. Krafist hefur verið sjálfstæðrar rannsóknar á því sem kallað hefur verið ábyrgðarleysi stjórnvalda.
Emmanuel Macron, forseti Frakklands, varaði við því í dag að borgarastyrjöld gæti brotist út að nýju í Líbanon ættu stjórnvöld þar í landi ein að bregðast við afleiðingum sprengingarinnar. Staðfest hefur verið að 181 lét lífið.
Macron er á leið til Beirút á mánudag, í annað sinn síðan sprengingin varð, til þess að draga athygli heimsleiðtoga að stöðunni í landinu.
Macron beindi sjónum sínum einnig að ástandinu í Hvíta-Rússlandi á fréttamannafundi í dag, og sagði það gera erfiða stöðu enn verri ef Rússar sendu herlið yfir landamærin til þess að brjóta á bak aftur mótmælin sem beinast að forsetanum Aleksander Lúkasjenkó. Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, tók í sama streng í gær.