Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Íþróttamenn beina athyglinni að óréttlæti

epa08627849 The court remains empty at the HP Field House at the ESPN Wide World of Sports Complex where the Houston Rockets were to face the Oklahoma City Thunder in game five of the first round playoffs in Kissimmee, Florida, USA, 26 August 2020. According to media reports, the Milwaukee Bucks did not take the court at nearby AdventHealth Arena for game five against the Orlando Magic, in a protest of the police shooting of 29 year old Jacob Blake, a Black man from Kenosha, Wisconsin, on 23 August 2020 and as a result the NBA has postponed all three games that were to take place 26 August 2020.  EPA-EFE/JOHN G. MABANGLO  SHUTTERSTOCK OUT
 Mynd: EPA-EFE - EPA

Íþróttamenn beina athyglinni að óréttlæti

27.08.2020 - 01:41
Hafnaboltaliðið Milwaukee Brewers neitaði að mæta til leiks gegn Cincinatti Reds í bandarísku atvinnumannadeildinni í hafnabolta í kvöld. Líkt og körfuboltalið borgarinnar sögðust leikmenn Brewers gera þetta í mótmælaskini við skotárás lögreglumanns á svarta Bandaríkjamanninn Jacob Blake í Wisconsin á sunnudag.

Fyrr í kvöld ákváðu leikmenn þeirra sex liða sem áttu leik í úrslitakeppni NBA deildarinnar í körfubolta að sniðganga leiki kvöldsins til þess að mótmæla óréttlæti í garð svartra Bandaríkjamanna. Leikmenn WNBA sýndu mótmælum karladeildarinnar samstöðu og léku ekki í kvöld. Þær krupu auk þess á meðan þjóðsöngurinn var spilaður.

Leikmenn Milwaukee Bucks í NBA lásu upp yfirlýsingu í gærkvöld. Þar sögðu þeir að síðustu fjórir mánuðir sýndu áframhaldandi óréttlæti í garð svartra Bandaríkjamanna. Landsmenn hafi notað raddir sínar og vettvang til þess að tjá sig um stöðu mála. Síðustu daga hafi ógeðfelldir atburðir gerst í heimaríki þeirra Wisconsin. Blake var skotinn sjö sinnum í bakið af lögreglumanni, og þá hafa tveir mótmælendur verið skotnir til bana.

„Þrátt fyrir hávært ákall um breytingar hefur ekkert gerst, og því getum við ekki einbeitt okkur að körfubolta," sögðu leikmenn Bucks. Þegar þeir stígi á leikvöllinn fyrir hönd Milwaukee og Wisconsin sé gert ráð fyrir því að þeir spili í hæsta gæðaflokki, leggi sig alla fram, og spili hver fyrir annan. Þeir geri sjálfir þá kröfu til sín, og á þessari stundu krefjast þeir þess sama frá löggjöfum og laganna vörðum. „Við köllum eftir réttlæti í máli Jacob Blake og krefjumst þess að lögreglumennirnir verði látnir svara til saka. Til þess þarf löggjafarþing Wisconsin að koma saman eftir margra mánaða aðgerðarleysi og grípa til aðgerða til þess að gera lögreglumenn ábyrga fyrir gjörðum sínum, gegn ofbeldi lögreglu og gera umbætur á réttarkerfinu,“ sögðu leikmennirnir. Þá hvöttu þeir alla Bandaríkjamenn til þess að fræðast, grípa til friðsamra og ábyrgra aðgerða og muna eftir að kjósa 3. nóvember næstkomandi.

Michele Roberts, stjórnandi leikmannasamtaka NBA deildarinnar, sendi einnig frá sér yfirlýsingu. Þar sagði hún leikmenn deildarinnar standa saman um félagslegt réttlæti. „Leikmennirnir taka það eina ferðina enn skýrt fram að þeir ætli sér ekki að þaga um málið. Við stöndum með ákvörðun leikmanna Milwaukee Bucks að mótmæla þessu óréttlæti og styðjum sameiginlega ákvörðun leikmanna að fresta öllum leikjum dagsins,“ stóð í yfirlýsingu Roberts.

Eigendur Bucks sögðust einnig styðja aðgerðir leikmanna. Þeir hafi ekki vitað af þeim fyrirfram, en hefðu stutt við þær hefðu þeir fengið veður af þeim. Eina leiðin til breytinga sé að varpa ljósi á kynþáttamisréttið sem er til staðar, segir í yfirlýsingu eigendanna.

Fleiri íþróttamenn hafa tekið undir mótmælin. Knattspyrnuliðin Inter Miami og Atlanta United ákváðu að hætta við leik sinn í kvöld.

Japanska tennisstjarnan Naomi Osaka sendi svo frá sér yfirlýsingu síðla kvölds um að hún ætli ekki að taka þátt í undanúrslitaleik stigamóts í New York á morgun. Margt sé mikilvægara en að horfa á hana leika tennis, og því vilji hún beina athyglinni þangað.

Tengdar fréttir

Körfubolti

Öllum leikjum kvöldsins í NBA frestað

Körfubolti

Neituðu að spila vegna skotárásar lögreglu