Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Í einangrun með mánaðargömlum syni og langveikri dóttur

27.08.2020 - 13:48
Mynd með færslu
 Mynd: ÁBK - Árni Björn Kristjánsson
Mánaðargömlum dreng sem greindist með COVID-19 í vikunni heilsast ágætlega. Faðir hans, Árni Björn Kristjánsson, segir að hann hósti aðeins og sé örlítið óvær. Fjölskyldan hlakkar til að losna úr einangrun og þakkar fyrir að geta stytt sér stundir úti í garði.

Fjölskyldan öll í einangrun 

Árni Björn hafði verið í einangrun í nokkra daga eftir að hafa greinst með COVID-19, þegar kona hans og mánaðargamall sonur greindust svo fyrr í vikunni. Þau eru öll í einangrun og sjö ára langveik dóttir þeirra, sem er ekki smituð, er með þeim. „Við í raun getum ekki haldið fjarlægð frá henni því hún þarf umönnun allan sólarhringinn. Þannig það var ekkert annað hægt að gera en að hún yrði inni á heimilinu með okkur,“ segir Árni í samtali við fréttastofu.  

Hann segir að fjölskyldunni heilsist ágætlega. Drengurinn hósti og sé dálítið óvær en ekkert þeirra sé alvarlega veikt. „Ég og konan mín erum komin yfir það versta. Við vorum aldrei mjög veik, ég aðeins veikari en hún. Svo eru þetta einkenni eins og ekkert bragðskyn og lyktarskyn og óeirð í fótum og höndum og þannig,“ segir hann.  

Alltaf aftur á byrjunarreit 

„Ég hefði átt að vera að losna úr einangrun núna á mánudaginn. Og það leit út fyrir að ég myndi losna þá ef enginn annar hefði fengið þetta. Svo viku seinna greindist konan mín og þá framlengdist einangrunin um viku. Og svo greindist sonur minn og þá lengdist tíminn aftur. Svo við erum alltaf komin aftur á byrjunarreit,“ segir Árni.  

Hann segist hafa fundið fyrir kvíða þegar eiginkona hans greindist: „Þá bara helltist yfir mig svakalega mikið af erfiðum tilfinningum af því ég hélt að þetta væri að verða búið. En svo vorum við allt í einu á byrjunarreit, konan mín orðin veik, og þá gerði ég ráð fyrir að börnin mín fengju þetta líka.“ 

Gott að geta verið úti í garði

Það reynir mjög mikið á að vera í einangrun með ungabarn en Árni þakkar fyrir að þau geti komist út í garð. „Já, sem betur fer erum við með garð. Það er eiginlega bara að bjarga okkur. Þær eru einmitt úti að leika núna á meðan ég er inni með litla,“ segir Árni.  

Hann segir að þau hafi fengið góða þjónustu og hjálp frá heilbrigðisstarfsfólki. „En það er náttúrulega lítið hægt að gera í þessari stöðu. Við erum dálítið ein í þessu þannig séð, en við bara reynum að harka þetta af okkur,“ segir hann.  

Dótturinni finnst spennandi að fara í sýnatöku 

Árni segir að sjö ára dótturinni finnist eitthvað spennandi við þetta óvenjulega ástand. „Hún er vön að vera á spítala. Hún hefur farið núna tvisvar eða þrisvar í sýnatöku og finnst það frekar spennandi, að hitta hjúkrunarfræðinga og lækna. Hún vill vera með grímur og hanska og núna vill hún helst að maður þvoi sér og spritti áður en maður labbar inn í hvert einasta herbergi hér inni.“ Hann segir að þau leggi mikið kapp á að koma í veg fyrir að hún verði eirðarlaus: „Við erum mikið í því að hafa ofan af fyrir henni. Reyna að leika og læra og svoleiðis,“ segir hann.  

Leggjast ekki í volæði 

Þótt hann hafi fundið fyrir kvíða segir hann þau hjónin brött og að þau hlakki mikið til að komast úr einangrun. „Það þýðir ekkert annað. Við erum ekki í neinni stöðu til að leggjast í volæði. Höfum alltaf reynt að tækla svona hluti á hörkunni,“ segir hann. „Það sem huggar okkur er að þetta er vonandi bara tímabil, og svo er þetta bara búið. Vonandi verða þetta ekki langvinn veikindi og eitthvað sem hefur áhrif á okkur seinna meir,“ bætir hann við. 

Hvorki farið í útilegu né á skemmtistað 

Árni segist ekki hafa hugmynd um hvernig þau smituðust. „Ég er bara búinn að vera heima í fæðingarorlofi og ekki búinn að hitta margt fólk. Ég hef ekki farið í eina einustu útilegu eða út á skemmtanalífið eða gert nokkurn skapaðan hlut, en samt fær maður þetta.“ 

Hann ákvað fljótt að fara ekkert leynt með smitið. „Frekar bara tala um þetta og leyfa fólki að heyra af þessu. Ég vildi frekar bara leyfa fólki að fylgjast með og segja því hvað er í gangi þannig það sé ekki bara óvissa og hræðsla sem myndast,“ segir hann.