Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Þingmenn handteknir í Hong Kong

26.08.2020 - 06:44
Erlent · Asía · Hong Kong
epa08626034 (FILE) - Pro-democracy lawmaker Lam Cheuk-ting (2-L, in white shirt), is carried out of the chamber by security guards during a scuffle with pro-Beijing lawmakers at a the Legislative Council meeting in Hong Kong, China, 18 May 2020 (reissued 26 August 2020). According to media reports, two pro-democracy lawmakers, Lam Cheuk-ting and Ted Hui, along with at least 10 others, were arrested on 26 August 2020, in relation to anti-government protests.  EPA-EFE/JEROME FAVRE
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Tveir stjórnarandstöðuþingmenn voru meðal fjölda fólks sem var handtekinn í Hong Kong í morgun. Vel á annan tug manna var handtekinn í aðgerð sem einblínir á mótmæli lýðræðissinna í fyrra. AFP fréttastofan hefur eftir stjórnmálaflokki þeirra Lam Cheuk-ting og Ted Hui að þeir hafi verið handteknir snemma í morgun þegar lögregla leitaði á heimili þeirra.

James To, lögmaður og flokksmaður Lýðræðisflokksins í Hong Kong, segir aðgerðir lögreglunnar einfaldlega pólitískar ofsóknir. Þeir Lam og Hui eru í minnihluta þings Hong Kong og hafa ekki farið leynt með gagnrýni sína á stjórnvöld í Peking og Hong Kong.

Á Facebook-síðu Lam segir að hann hafi verið handtekinn vegna gruns um þátttöku í óeirðum 21. júlí í fyrra.Þá voru hann og tugir annarra lýðræðissinna lamdir af stuðningsmönnum stjórnvalda. Lögreglan mætti seint á vettvang, og sást til hennar þar sem hún leyfði árásarmönnum að yfirgefa svæðið án afskipta lögreglu. 

Hui var handtekinn og verður ákærður fyrir tilraun til að hindra framgang réttvísinnar, og fyrir að hafa aðgang að tölvu með glæpsamlegu innihaldi. 
Fjölmenn mótmæli hófust í Hong Kong í júní í fyrra og stóðu yfir nánast sleitulaust í sjö mánuði. Yfir níu þúsund voru handteknir.