Lömunarveiki útrýmt í Afríku

26.08.2020 - 03:18
epa05210660 A health worker administers a polio vaccine to a child, in Karachi, Pakistan, 14 March 2016. Pakistan is one of the last two countries - along with Afghanistan - where the polio is still endemic, meaning infections occur within the local
Ungt barn í Pakistan fær bóluefni gegn mænusótt. Mynd: EPA
Lömunarveiki telst nú hafa verið útrýmt í Afríku, samkvæmt óháðri stofnun sem fylgist með tilfellum í álfunni. Sjúkdómurinn leggst helst á börn undir fimm ára aldri, og getur leitt til langvarandi lömunar. Sjúkdómurinn getur verið banvænn ef hann leggst á vöðva í öndunarfærum.

Nígería varð síðasta Afríkuríkið til þess að losa sig við lömunarveiki. Fyrir áratug var um helmingur allra tilfella í heiminum þar í landi. Ráðist var í umfangsmikla bólusetningarherferð í landinu. Þá var rík áhersla lögð á að komast til afskekktra héraða, auk héraða sem voru undir stöðugum árásum vígamanna. Nokkrir heilbrigðisstarfsmenn voru drepnir við störf sín. 

Einu tilfelli lömunarveiki sem greinast nú í Afríku eru þau sem verða til af völdum bóluefnisins. 177 slík tilfelli hafa greinst á árinu segir á vef fréttastofu BBC. Mjög sjaldgæft er að slíkt gerist. Þá umbreytist veiran sem gefin er með bóluefni í gegnum munn og getur breiðst út meðal samfélaga þar sem ónæmi er lítið. 

Villt lömunarveikiveira breiðist nú aðeins út í tveimur ríkjum heimsins, Afganistan og Pakistan. Þar hafa einnig greinst tilfelli af völdum bóluefnis. 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi