Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Laus úr fangelsi en fær hvorki að fara né vera

Mynd: Nara Walker / Nara Walker

Laus úr fangelsi en fær hvorki að fara né vera

26.08.2020 - 10:20

Höfundar

Árið 2018 var listakonan Nara Walker dæmd í átján mánaða fangelsi hér á landi fyrir að hafa bitið bút úr tungu eiginmanns síns. Hún hefur alltaf sagt að um sjálfsvörn hafi verið að ræða en nú, tveimur árum eftir dóminn, er hún enn föst á Íslandi þrátt fyrir að vera hvorki með landvistarleyfi né kennitölu. Hún opnaði nýverið sýningu í Flæði við Vesturgötu sem byggir á reynslunni og áfallastreituröskun sem hún glímir við.

Nara er áströlsk en hefur verið búsett á Íslandi um nokkurt skeið. Hún er listamaður og vinnur einna mest með sjónræna og stafræna miðla, myndlist og gjörningalist sem hún blandar saman. Hún hefur vakið athygli fyrir að fara frumlegar leiðir í listtjáningu sinni eins og þegar hún tók þátt í Feneyjatvíæringnum árið 2015 þar sem hún málaði með eigin hári.

Nýlega hefur Nara hellt sér út í skrif og hafa þau verið hluti af ákveðnu ferli sem tengist viðleitni hennar til að komast í samband við dulda hluti sjálfrar sín skilja sína eigin rödd betur. Eitthvað innra með Nöru hefur að hennar sögn barist við að brjótast út og sýna sig um árabil en henni hefur gengið illa að koma því í orð eða tjá það með öðrum hætti, eða þar til nú nýverið þegar óvenjuleg reynsla varð til þess að rödd hennar og sköpun losnuðu úr læðingi. Það er ein ástæða þess að hún byrjaði að vinna að hljóðinnsetningunni sem er hluti af nýrri sýningu hennar í Flæði við Vesturgötu.

Mynd með færslu
 Mynd: Nara Walker
Skuggasjálf Nöru kom henni í samband við sjálfa sig og fortíð hennar og veittu innblástur í verkunum

2018 var Nara dæmd til átján mánaða fangelsisvistar fyrir að hafa bitið hluta af tungu eiginmanns síns. Hún hefur alltaf sagt að um neyðarviðbrögð hafi verið að ræða og hún hafi verið í sjálfsvörn enda hafi hún sýnt fram á langvarandi heimilisofbeldi af hálfu eiginmanns síns. Mál sitt styður hún meðal annars með smáskilaboðum, sem dagskrárgerðarkona Rásar 1 hefur undir höndum, þar sem eiginmaður hennar virðist viðurkenna margþætt brot gegn henni.

Síðan dómur féll í málinu hefur Nara kært íslenska ríkið til Mannréttindadómstóls Evrópu og nú bíður hún þess að málið verði tekið fyrir. Eins og staðan er nú má segja að hún sé föst í ákveðnu limbói því hún hefur hvorki landvistarleyfi né kennitölu og má í raun hvorki fara nér vera. Það hefur reynst Nöru erfitt að vinna úr reynslu sinni en með hjálp góðra vina, sem hún segir vera sem fjölskyldu sína á Íslandi, og hefur henni tekist að finna jákvæðar hliðar þess frelsis sem hún býr við og vinna úr áföllunum með listsköpuninni. 

Ofbeldinu í hjónabandinu kveðst hún hafa áttað sig á fyrir um þremur árum síðan þegar hún fór að skoða samband sitt í samhengi við ofbeldi sem hún minnist af hálfu föður síns í æsku. „Með því að vinna úr þeirri reynslu með hreyfingum fremur en orðum tókst mér að segja við eiginmanninn að ég gæti ekki verið í þessu sambandi lengur. Frá þeirri stundu hefur öll mín vinna snúist um minn eigin þroska og vöxt.“ Verk Nöru snúast þó ekki beinlínis um það sem komið hefur fyrir hana heldur mun fremur segir hún þau taka mið af tilfinningum hennar og innra ferli.

Sýningin sem stendur yfir í Flæði ber yfirskriftina Transition, eða Umskipti, sem er viðeigandi fyrir þetta tímabil í lífi Nöru, sem lauk í vikunni reynslulausn úr fangelsi. Hún skoðar æsku sína, samband sitt við móður og föður og sýnir sjálfsmyndir af því sem hún kallar skuggasjálf sitt. Hún kveðst hafa uppgötvað skuggasjálfið eftir undarlega upplifun sem hún lenti í nýverið. Hún sat í sófanum á heimili sínu og leið skyndilega sem hún væri komin úr líkamanum og væri að horfa á sjálfa sig. „En ég var að horfa á skuggasjálfið sem er í raun allir þessir hlutir sem ég ræði ekki. Eins og táningsárin þegar ég var beitt ofbeldi, og þessa hluti sem hafa runnið inn í önnur óheilbrigð sambönd,“ segir Nara sem horfði á þetta skuggasjálf sitt og leið um stund eins og hún væri að missa vitið. „Því það er það sem gerist. Manni finnst maður úr sambandi við umheiminn, upplifir hugarrof. Skilningarvit líkamans hverfa næstum og maður verður að ytra sjálfi. Eins og fluga á vegg.“

Nara Walker ákvað þegar hún komst aftur til sjálfrar sín að nýta sér reynsluna til sköpunar en bjóða öðrum konum að deila með sér sögum sínum og búa þannig til eina og stærri rödd. Það voru nefnilega aðrar konur sem voru til staðar fyrir Nöru þegar hún gekk í gegnum dómsmál og fangelsisvist og nú vill hún skapa rými fyrir þessar og aðrar konur svo þær geti í krafti samstöðu tjáð sig um sameiginlegan reynsluheim kvenna. „Ég vildi skapa þetta rými fyrir konur og bjóða þeim að tala um hvernig það er að alast upp sem stúlka, vera kona og deila þekkingu en einnig að tala um tráma og sigra. Þannig gæti ég safnað röddum þeirra á þeirra forsendum.“

Anna Marsibil Clausen ræddi við Nöru Walker í Tengivagninum á Rás 1.

Tengdar fréttir

Myndlist

Togar eitthvað inn úr sér og dregur fram

Myndlist

Skar út veggfóður og flutti í heilu lagi heim

Innlent

Hæstiréttur hafnar beiðni Nöru Walker