Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Segir leyniþjónustuna rúna trausti

25.08.2020 - 23:49
Mynd með færslu
Danskir lögreglumenn að störfum. Mynd úr safni. Mynd: DR
Það verður erfitt fyrir dönsku leyniþjónustuna að byggja upp traust á nýjan leik. Þetta segir sérfræðingur sem kveður stofnunina vera rúna trausti.

Greint var frá því í gær að núverandi og fyrrverandi yfirmenn leyniþjónustu danska hersins hefðu verið látnir taka pokann sinn eftir að úttekt á stofnuninni vakti grunsemdir um að leyniþjónustan stundaði ólöglegt eftirlit.

Stofnunin er sögð hafa safnað upplýsingum um danska ríkisborgara með óleyfilegum hætti. Þá hafi hún leynt mikilvægum upplýsingum og veitt yfirvöldum rangar upplýsingar um eftirlitsaðgerðir sínar á árunum 2014-2020.

Danska ríkisútvarpið DR hefur eftir Flemming Splidsboel Hansen, rannsakanda við dönsku stofnunina í alþjóðafræðum, að það muni taka leyniþjónustuna langan tíma að öðlast traust á nýjan leik.

„Þetta snýst um það hvort að við getum yfirhöfuð treyst þeim,“ segir Spliddsboel Hansen og vísar þar til þess hvort að stofnunin standist þær siðferðiskröfur sem til hennar eru gerðar.

Dyr leyniþjónustunnar séu lokaðar og almenningur viti ekki hvað gerist þar inni og því sé traustið mikilvægt. „Það er límið sem bindur leyniþjónustuna, stjórnmálin og hið opinbera saman,“ segir hann.