„Stillumyndagerð sameinar ótrúlega marga miðla. Ljósmyndun, leikmuna- og leikmyndargerð, brúðugerð, hljóð og alls konar tækni. Þetta sameinast allt í einni kássu í stillumyndagerðinni, sem er skemmtilegt,“ segir Atli Arnarsson, annar helmingur teymisins Stillu sem frumsýnir stuttmyndina Eldhús eftir máli á RIFF, alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Reykjavík, í ár.
Myndin byggist á samnefndri sögu Svövu Jakobsdóttur. Að sögn Sólrúnar Ylfu Ingimarsdóttur, hins liðsmanns Stillu, hófust tilraunir hennar með þessa gerð kvikmynda fyrir um sex árum. „Þetta byrjaði held ég allt þegar það var verkfall í menntaskólum hérna einhvern tímann, 2014 held ég, og ég fékk þá flugu í höfuðið að prófa að gera hreyfimynd bara til að stytta mér stundir. Þá gerði ég fyrstu, stuttu hreyfimyndina, mjög ófagmannlegt verkefni.“