Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Bogi í brúðulíki í eldhúsi Svövu Jakobsdóttur

Mynd: RÚV / RÚV

Bogi í brúðulíki í eldhúsi Svövu Jakobsdóttur

25.08.2020 - 10:15

Höfundar

Stillustuttmynd eftir sögu Svövu Jakobsdóttur verður frumsýnd á RIFF í ár. Höfundar myndarinnar, Sólrún Ylfa Ingimarsdóttir og Atli Arnarsson, segja myndina hafa verið skemmtilegt þolinmæðisverk. „Við erum búin að vera ótrúlega heppin með að fá góða leikara til að hjálpa okkur,“ segir Atli en Bogi Ágústsson fréttamaður leikur sjálfan sig í myndinni.

„Stillumyndagerð sameinar ótrúlega marga miðla. Ljósmyndun, leikmuna- og leikmyndargerð, brúðugerð, hljóð og alls konar tækni. Þetta sameinast allt í einni kássu í stillumyndagerðinni, sem er skemmtilegt,“ segir Atli Arnarsson, annar helmingur teymisins Stillu sem frumsýnir stuttmyndina Eldhús eftir máli á RIFF, alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Reykjavík, í ár.

Myndin byggist á samnefndri sögu Svövu Jakobsdóttur. Að sögn Sólrúnar Ylfu Ingimarsdóttur, hins liðsmanns Stillu, hófust tilraunir hennar með þessa gerð kvikmynda fyrir um sex árum. „Þetta byrjaði held ég allt þegar það var verkfall í menntaskólum hérna einhvern tímann, 2014 held ég, og ég fékk þá flugu í höfuðið að prófa að gera hreyfimynd bara til að stytta mér stundir. Þá gerði ég fyrstu, stuttu hreyfimyndina, mjög ófagmannlegt verkefni.“

Stillustuttmyndin Eldhús eftir máli verður frumsýnd á RIFF í ár. Höfundar myndarinnar, Sólrún Ylfa Ingimarsdóttir og Atli Arnarsson, segja myndina hafa verið skemmtilegt þolinmæðisverk. Bogi Ágústsson fréttamaður leikur sjálfan sig í myndinni.
 Mynd: RÚV
Atli Arnarsson og Sólrún Ylfa Ingimarsdóttir.

Verkefnið hófst árið 2018 og hefur því tekið tvö ár að fullvinna myndina. Báðir hafa stillumyndasmiðirnir bakgrunn í tónlist. Sólrún Ylfa stundar fiðlunám í Kaupmannahöfn og Atli er hljóð- og tónlistarmaður. Hljóðmynd Eldhúss eftir máli er enda fjölbreytt og vönduð og talsetning er á herðum fagfólks.

„Við erum búin að vera ótrúlega heppin með að fá góða leikara til að hjálpa okkur. Í aðalhlutverkum er Björn Thors, sem leikur Ingólf. Arnar Jónsson leikur svo á þýsku í myndinni. Dominique Gyða leikur konu Ingólfs og svo fengum við Boga Ágústsson til að leika sjálfan sig og gerðum brúðu af honum. Og fleiri góðir, allir búnir að vera rosalega til í þetta. Svo er dálítið fyndið að minnsta hlutverkið í myndinni er hundur sem heyrist gelta í bakgrunni en sést aldrei. Hann er leikinn af Steinda Jr.,“ segir Atli.

Elskar litla hluti

Að sögn Sólrúnar rak verk Svövu Jakobsdóttur heldur óvænt á hennar fjörur. „Systir mín útskrifaðist úr bókmenntafræði í Háskóla Íslands þar sem hún skrifaði ritgerð um Svövu Jakobsdóttur og kynnti mig fyrir þeirri frábæru listakonu. Okkur langaði svo mikið að gera mynd eftir þessari sögu af því að hún er svo súrrealísk og skrýtin. Hún er frekar gömul en á samt mjög vel við í dag, finnst okkur,“ segir Sólrún. 

Sagan fjallar um Ingólf, hugmyndaríkan Íslending sem fær þá flugu í höfuðið að smíða hið fullkomna eldhús fyrir konuna sína og er að sögn Sólrúnar Ylfu og Atla með sterkan femínískan boðskap.

Stillustuttmyndin Eldhús eftir máli verður frumsýnd á RIFF í ár. Höfundar myndarinnar, Sólrún Ylfa Ingimarsdóttir og Atli Arnarsson, segja myndina hafa verið skemmtilegt þolinmæðisverk. Bogi Ágústsson fréttamaður leikur sjálfan sig í myndinni.
 Mynd: RÚV
Gerð myndarinnar var mjög tímafrek og reyndi á þolinmæðina.

„Annars þá erum við bara frekar heilluð af hreyfimyndagerð,“ segir Sólrún. „Þetta er skemmtilegt, ég elska litla hluti og myndlist er svolítið mikið áhugamál. Mjög skemmtilegt verkefni en mjög tímafrekt og reynir mjög á þolinmæðina.“

Myndin verður sem fyrr segir frumsýnd á RIFF í ár, milli 24. september til 4. október. Allar nánari upplýsingar um Stillu má finna hér og hér

Tengdar fréttir

Boga-þema í sex ára afmælisveislunni