Ratko Mladic í réttarsal í Haag. Mynd: ASSOCIATED PRESS - ICTY Video
Málflutningur hefst í dag vegna áfrýjunar Ratko Mladic vegna lífstíðardóms stríðsglæpadómstóls Sameinuðu þjóðanna í Haag árið 2017. Mladic sem var æðsti yfirmaður hers Bosníu-Serba áfrýjaði dómnum í mars árið 2018.
Mladic fer fram á að verða sýknaður af öllum ákærum en hann var sakfelldur í tíu liðum fyrir þjóðarmorð í Júgóslavíustríðinu á árunum 1992 til 1995.
Hann var álitinn sekur um fjöldamorð á um átta þúsund múslimum í borginni Srebrenica í Bosníu árið 1995 og 44 mánaða langt umsátur um borgina Sarajevo. Það kostaði um tíu þúsund lífið.
Mladic náðist árið 2011 eftir sextán ár á flótta og hefur verið mjög veikur undanfarin ár. Margir Serbar álíta Mladic hetju og vantreysta niðurstöðum alþjóðlegra dómstóla í málum sem tengjast Júgóslavíustríðunum.