Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Kellyanne Conway yfirgefur raðir Trumps

Counselor to President Kellyanne Conway listens during the daily White House briefing, Monday, Jan. 23, 2017, in the briefing room of the White House in Washington. (AP Photo/Evan Vucci)
Kellyanne Conway, ráðgjafi Bandaríkjaforseta.  Mynd: Associated Press - AP
Kellyanne Conway helsti ráðgjafi Donalds Trump Bandaríkjaforseta hefur ákveðið að stíga til hliðar. Hún stjórnaði kosningabaráttu forsetans árið 2016 og er þekkt fyrir að takast hressilega á við fréttamenn.

Nú kveðst Conway ætla að einbeita sér að fjölskyldu sinni. Hún segir í yfirlýsingu að hún muni yfirgefa Hvíta húsið fyrir næstu mánaðamót.

George Conway, eiginmaður hennar hefur löngum verið mjög gagnrýninn á forsetann og jafnvel velt fyrir sér hvort hann væri andlega hæfur til að gegna embættinu.

Hann segist nú ætla að taka sér bæði hlé frá Twitter og Lincoln-verkefninu svokallaða. Það er átak nokkurs hóps Repúblikana til að koma í veg fyrir endurkjör Trumps.

Claudia fimmtán ára gömul dóttir þeirra segist hafa orðið fyrir áföllum og miklu mótlæti vegna stöðu móður sinnar.

Kellyanne Conway segir brotthvarfið úr röðum forsetans vera algerlega sína eigin ákvörðun. Hún muni tilkynna síðar hvað hún hyggist fyrir í framtíðinni.