
Handtekin fyrir skipulagningu mótmæla gegn Lukasjenko
Annar þeirra handteknu er Sergei Dylevsky, starfsmaður í traktoraverksmiðju . Hann er orðinn þekktur í landinu eftir víðtæk verkföll í ríkisreknum verksmiðjum eftir forsetakosningarnar 9. ágúst. Hin er Olga Kovalkova, náin samstarfskona Svetlönu Tíkanovskaju, forsetaframbjóðanda. Þeim er gefið að sök að hafa skipulagt ólögleg mótmæli.
Samhæfingarráðið var stofnað eftir forsetakosningarnar. Yfirvöld segja að Lukasjenko hafi fengið um 80 prósent atkvæða en margir telja að brögð hafi verið í tafli. Tugir þúsunda hafa mótmælt í höfuðborginni Minsk. Einnig hefur verið mótmælt í borgum og bæjum víða um landið. Fólk krefst þess að haldnar verði aðrar og löglegar kosningar. Tveir forsetaframbjóðendur voru hnepptir í varðhald fyrr í sumar og einn flýði til Rússlands. Annar þeirra sem er nú á bak við lás og slá er eiginmaður Tíkanovskaju. Meðal þeirra sem eiga sæti í samhæfingarráðinu er rithöfundurinn og Nóbelsverðlaunahafinn Svetlana Alexievich.