Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Danska leyniþjónustan grunuð um ólöglegt eftirlit

24.08.2020 - 21:39
epa04330442 Pedestrians stroll at Stroeget, a popular pedestrian street in downtown Copenhagen, Denmark, 04 June 2014.  EPA/MAURITZ ANTIN
Strikið Mynd: EPA
Yfirmaður leyniþjónustu danska hersins hefur verið rekinn úr starfi eftir að úttekt á stofnuninni vakti grunsemdir um að leyniþjónustan stundaði ólöglegt eftirlit.

Danska varnarmálaráðuneytið segir úttektina, sem er mjög gagnrýnin í garð leyniþjónustunnar, hafa sýnt fram á stofnunin „leyndi nauðsynlegum og mikilvægum upplýsingum“ og „veitti yfirvöldum rangar upplýsingar“ er hún var spurð út í eftirlitsaðgerðir sínar á árunum 2014-2020.

Danska Ritzau fréttaveitan segir stofnunina einnig hafa safnað upplýsingum um danska ríkisborgara með „óleyfilegum“ hætti.

Lars Findsen, sem hefur verið yfirmaður leyniþjónustunnar frá árinu 2015, var látinn taka pokann sinn ásamt tveimur öðrum yfirmönnum stofnunarinnar. Þá segir danska ríkisútvarpið DR Thomas Ahrenkiel, fyrrverandi yfirmann stofnunarinnar og deildarstjóra í varnarmálaráðuneytinu, einnig hafa verið leystan frá störfum vegna málsins en Ahrenkiel átti að taka við embætti sendiherra Danmerkur í Þýskalandi um mánaðamótin.

Sjálfur hefur Findsen sagt að sér þyki málið miður, en kollegar hans eigi uppsögnina þó ekki skilið.

Í yfirlýsingu sem varnarmálaráðherrann, Trine Bramsen, sendi frá sér í dag kveðst hún munu tryggja að óháð rannsókn eigi sér stað á málinu.

Anna Sigríður Einarsdóttir