Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Biðst afsökunar á að hafa brotið sóttvarnarreglur

23.08.2020 - 13:40
epa08064680 European Commissioner for Trade Phil Hogan gives a press conference on the Commission proposals to ensure the respect of the EU's international rights related to trade at the European Commission in Brussels, Belgium, 12 December 2019.  EPA-EFE/STEPHANIE LECOCQ
 Mynd: EPA - EPA-EFE
Phil Hogan, írskur yfirmaður viðskiptaráðs Evrópusambandsins, baðst í dag afsökunar á því að hafa setið 80 manna kvöldverð á miðvikudag og brotið þannig sóttvarnarreglur á Írlandi.

Forsætisráðherra Írlands, Micheál Martin, fór þess á leit við Phil Hogan fyrr í dag að hann íhugaði stöðu sína eftir að hafa setið kvöldverðinn. Írski landbúnaðarráðherrann, sem einnig mætti í kvöldverðinn, sagði af sér vegna málsins fyrr í vikunni.

Viðburðurinn var haldinn degi eftir að hertar reglur vegna COVID-19 faraldursins tóku gildi á Írlandi. Samkvæmt þeim má ekki halda neina formlega viðburði á veitingastöðum hótela. Lögregla rannsakar hvort lög hafi verið brotin í kvöldverðinum. 

Forsætisráðherrann og varaforsætisráðherrann Leo Varadkar hafa gefið það út að þeir telji að kvöldverðurinn hefði ekki átt vera haldinn. Þeir hafa nú sent frá sér yfirlýsingu þar sem þeir gagnrýna Hogan fyrir að biðjast afsökunar of seint og krefjast þess að hann útskýri mál sitt.