Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Stjórnarandstaðan í Malí styður valdarán hersins

20.08.2020 - 04:01
epa08612910 Malians climb onto a Mali police vehicle and cheer as it drives through the streets of Bamako, a day after the military seized the Presidency in Bamako, Mali, 19 August 2020. Mali President Ibrahim Boubakar Keïta resigned 19 August 2020 after he was seized by military in coup on 18 August 2020.  EPA-EFE/H.DIAKITE
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Assimi Goita, ofursti í malíska hernum, steig fram í gær og kynnti sig sem leiðtoga herforingjastjórnarinnar sem hrifsaði völdin í Malí á þriðjudag. Valdarán hans og fylgismanna hans í hernum hefur verið fordæmt víða á alþjóðavettvangi, en malíska stjórnarandstaðan lýsir stuðningi við herinn.

Lýsti sig leiðtoga valdaræningja

Goita fór til fundar við háttsetta embættismenn í höfuðborginni Bamako í gær. Í framhaldi af þeim fundi ávarpaði hann fréttamenn, umvafinn vopnuðum hermönnum. Lýsti hann því yfir að hann væri leiðtogi „Landsnefndar um frelsun þjóðarinnar,“ sem hefði tekið völdin í landinu. „Malí glímir við djúpstæða félagslega og pólitíska kreppu,“ sagði Goito, „og má einfaldlega ekki við fleiri mistökum.“

Félagar hans úr röðum uppreisnarmanna hvöttu almenning til að hverfa aftur til hvunndagsins og sinna sínum störfum. Vöruðu þeir fólk við að fremja skemmdarverk og hétu því að refsa hverjum þeim hermanni, sem reyndi að nýta sér aðstæður til að hafa fé af óbreyttum borgurum.

Stjórnarandstaðan lýsir stuðningi við valdaræningja

Samfylking stjórnarandstöðuhreyfinga, sem kallar sig M5-RFP, sendi frá sér yfirlýsingu í gær þar sem leiðtogar hennar segjast hafa „tekið eftir loforði“ herforingjastjórnarinnar um að skila völdunum aftur til borgaralegra stjórnmálaafla í fyllingu tímans, og heita því að vinna að því markmiði með hernum.

Einn af leiðtogum stjórnarandstöðunnar, Choguel Maiga, sagði fréttamönnum að M5-RFP hygðist blása til „mikillar hátíðar föðurlandsvina“ á föstudag, í höfuðborginni Bamako og um land allt, til að „fagna sigri malísku þjóðarinnar.“

Valdaránið fordæmt og Malí rekið úr Afríkubandalaginu í bili

Afríkubandalagið, Samtök Vestur-Afríkuríkja, Evrópusambandið, Bandaríkin, Frakkland og Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna krefjast þess að herforingjastjórnin frelsi þegar í stað Ibrahim Boubacar Keita, forseta Malí, forsætisráðherrann Boubou Cisse og fleiri háttsetta ráðamenn sem herinn fangelsaði þegar hann rændi völdum á þriðjudag.

Afríkubandalagið tilkynnti í gær að Malí væri útilokað frá þátttöku í störfum þess og fundum og yrði það áfram þar til réttmæt stjórnvöld, eins og þau eru skilgreind í stjórnarskrá landsins, taki aftur við völdum.

Samtök Vestur-Afríkuríkja, sem um árabil hefur reynt að miðla málum í malískum stjórnmálum, hyggjast einnig útiloka Malí frá öllu sínu starfi. Heita samtökin því að loka bæði landamærum og lofthelgi aðildarríkja fyrir öllum sem frá Malí koma og beita sér fyrir refsiaðgerðum gegn „öllum valdaræningjunum, samherjum þeirra og samverkamönnum.“