Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Rio Tinto sækir um sambærilegt starfsleyfi

20.08.2020 - 14:14
Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist Jónsson - RÚV
Í umsókn Rio Tinto á Íslandi til Umhverfisstofnunar um nýtt starfsleyfi er sótt um leyfi sambærilegt því sem nú er í gildi. Engar ákvarðanir hafa verið teknar um framtíð ISAL, álvers fyrirtækisins í Straumsvík sem er eina álver Rio Tinto sem eftir er í Evrópu. 

Þetta segir Bjarni Már Gylfason, upplýsingafulltrúi Rio Tinto á Íslandi í samtali við Fréttastofu RÚV. Hann segir að forsenda rekstrar sé að vera með gilt starfsleyfi, en það sem nú er í gildi var gefið út 2005 og rennur út 1. nóvember næstkomandi. 

Mikið tap hefur verið á rekstri álversins í Straumsvík undanfarin ár og var það afskrifað að fullu í síðasta uppgjöri Rio Tinto.  Stjórnendur Rio Tinto hafa gagnrýnt hátt orkuverð hér á landi og kærðu Landsvirkjun til Samkeppniseftirlitsins í síðasta mánuði fyrir misnotkun á yfirburðastöðu fyrirtækisins á raforkumarkaði og fyrir að mismuna orkufyrirtækjunum. 

Þeir hafa sagt að álframleiðsla hér á landi sé ekki samkeppnishæf vegna hás orkuverðs. Endurskoðun á starfseminni hefur verið boðuð og sex stéttarfélög starfsmanna álversins vísuðu kjaradeilu sinni við Rio Tinto til ríkissáttasemjara í síðasta mánuði. Engir fundir hafa enn verið haldnir í deilunni.