Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Máttu ekki meta hversu oft þurfti að ydda blýanta

20.08.2020 - 11:03
Mynd með færslu
 Mynd: Lisa Fotios - Pexels
Kærunefnd útboðsmála hefur fellt úr gildi ákvörðun Akureyrarbæjar um að ganga til samninga við Egilsson á grundvelli örútboðs um kaup á ritföngum og námsgögnum fyrir grunnskóla bæjarsins. 

Penninn kærði ákvörðunina og taldi að gæðamat bæjarins hefði ekki verið í samræmi við útboðsgögn eða lög um opinber innkaup. Fram kemur í úrskurði kærunefndar að sjö manna teymi frá grunnskólum bæjarins hafi verið fengið til að leggja mat á vörurnar.

Var það mat þeirra að ákveðnir blýantar, vasareiknir, strokleður og límstifti hefði ekki fullnægt kröfum. Penninn lagði fram nýjar vörur en við það hækkaði tilboð fyrirtækisins. Tók bærinn því þá ákvörðun að semja við Egilsson.

Brutu gegn lögum um opinber innkaup 

Í úrskurði kærunefndar var meðal annars horft til þess að bærinn hefði lagt mat á það hversu oft þurfti að ydda blýanta, hvort erfitt væri að stroka út blýantsstrik og hvernig væri að halda utan um þá.

Kærunefndin telur að með þessu hafi verið lögð til grundvallar sjónarmið sem ekki mátti lesa úr útboðsgögnum. Þar kom fram að blýantar ættu að vera sterkir svo þeir brotnuðu ekki við notkun og að auðvelt þyrfti að vera að skrifa með þeim.  Vaxlitir ættu að lita og strokleður ætti að geta strokað út blý með góðu móti.  

Með þessu hafi verið brotið gegn lögum og reglum um opinber innkaup og var samningurinn því felldur úr gildi. Akureyrarbæ var jafnframt gert að greiða Pennanum 700 þúsund krónur í málskostnað.

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV