Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Dauður lax á víð og dreif eftir aurflóð

20.08.2020 - 12:50
Innlent · Borgarbyggð · Hvítá · lax · Náttúra
Mynd: Elsa María Drífu Guðlaugsdót / RÚV
Gríðarlegt aurflóð varð í Hvítá í Borgarfirði aðfaranótt þriðjudags. Áin meira en þrefaldaðist á um hálfum sólarhring og rennslið fór úr 90 rúmmetrum á sekúndu upp í tæplega 260 rúmmetra.

Þykkt lag af aur er í og við ána. Hún hefur hækkað um einn og hálfan metra við flóðið, sagði Elsa María Guðlaugs Drífudóttir, fréttamaður, í hádegisfréttum. Hún var við Hvítá. „Hér er líka dauður lax á víð og dreif en það er ekki víst nákvæmlega hvaða áhrif þetta hefur á lífríkið en það er víst að það eru ekki góð áhrif.“

Mynd með færslu
Hér sést hvar rennur undan jöklinum, og einnig förin í jöklinum þar sem lónið var ofar og til hægri. Mynd: Arnar Bergþórsson - aðsend mynd

Flogið var yfir svæðið í morgun. Lón við Langjökul hefur yfirleitt runnið niður í Hvítá, norðan við fjallið Hafursfell. Eftir að jökullinn hopaði hefur lónið rutt sér nýja leið undir jökulinnn og suðaustur fyrir fjallið. Það veldur því að nú rennur lónið niður í Svartá sem er yfirleitt vatnslaus meirihluta ársins og hefur dregið með sér alla þessa drullu og aur.

Sérfræðingar á vegum Hafrannsóknarstofnunar og Veðurstofunnar eru að skoða næstu skref.

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir