Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Tekinn tvisvar fyrir hraðakstur á 20 mínútum

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson
Ökumaðurinn sem lögreglan á Suðurlandi stöðvaði á Mýrdalssandi mátti punga út á annað hundrað þúsund krónum fyrir hraðakstur í dag, því hann var stöðvaður aftur aðeins 20 mínútum síðar.

Lögreglan á Suðurlandi vekur athygli á þessu á Facebook-síðu sinni í kvöld.

„Hraðakstur í umdæmi lögreglunnar á Suðurlandi er því miður alltof algengur og eru ökumenn stöðvaðir daglega fyrir slík brot. Það heyrir þó til undantekninga að sami ökumaður sé stöðvaður fyrir hraðakstur með nokkurra mínútna millibili,“ segir í færslunni.

Slíkt hafi þó gerst í dag þegar erlendur ferðamaður var stöðvaður á Mýrdalssandi á 134 km hraða. Hann var sektaður um 90.000 krónur fyrir hraðaksturinn og gekk frá málinu á staðnum.

Um 20 mínútum síðar var þessi sami ökumaður stöðvaður á Suðurlandsvegi í Eldhrauni og mældist nú á 117 km hraða. Hann gekkst einnig við því broti og fékk að þessu sinni að punga út 60.000 krónum í sekt fyrir hraðaksturinn.

„Þessi erlendi gestur er því 150.000 krónum fátækari eftir akstur um vegi Suðurlands í dag,“ segir í færslunni.

Anna Sigríður Einarsdóttir