Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Greina sýni langt fram á kvöld í Vatnsmýri

Mynd: RÚV - Guðmundur Bergkvist / RÚV
Formlegt samstarf Landspítalans og Íslenskrar erfðagreiningar við greiningu sýna hófst í morgun og eru flest þeirra nú greind hjá ÍE. Síðustu fjórar vikur hefur langmest verið greint hjá veirufræðideild Landspítalans. Fjögur innanlandssmit voru staðfest í gær. 

Flest smit virk en voru áður gömul á landamærunum

Þrír hinna smituðu voru í sóttkví. Raðgreining veirunnar í smitunum er sú sama og í smitunum undanfarnar vikur. Fimm smit greindust á landamærunum og að minnsta kosti tvö þeirra eru virk. 

Athyglisvert er þegar litið er á súlurit um fjölda smita frá útlöndum að fyrstu sex vikur landamæraskimunar voru flest smitin gömul. Síðustu vikurnar hafa flest smitin verið virk. Virku smitin frá 22. júlí eru 53 en þau, sem mótefni hefur mælst í, eru 17 talsins. 

Hægt að greina 5000 sýni á dag

Ástæða samstarfs Íslenskrar erfðagreiningar og veirufræðideildar Landspítalans er sú að tæki og húsakynni hjá erfðagreiningu á tveimur rannsóknarstofum eru betri en á veirufræðideildinni. Þar eru unnið í tveimur rannsóknarstofum. 

Þegar mest er um lendingar koma stroksýni klukkutímafresti frá Keflavíkurflugvelli í Vatnsmýrina. Hægt er að greina 5000 sýni á dag. 

Unnið frá sjö á morgnana til ellefu á kvöldin

Á fyrri rannsóknarstofunni eru sýnin skráð í sérhannað tölvukerfi. Hluti af hverju sýni er sett í hólf í bakka ásamt öðrum 93. Í þau er sett efni þannig að hægt sé að einangra erfðaefnið eða RNA úr sýnunum. 

Bakkarnar eru svo settir í eitt fjögurra tækja sem einangra efnið. Það tekur 40 mínútur. 

Unnið er frá sjö á morgnanna til ellefu á kvöldin á tvískiptum vöktum einn starfsmaður frá Íslenskri erfðagreiningu er á hverri vakt en hinir frá veirufræðideildinni. 

Erfðaefnið í gegnum mörg tæki

Næst er einangraða erfðaefnið flutt á seinni rannsóknarstofuna. Þar er hvarfefni sett í erfðaefnið. 

Þaðan er það flutt í vélmenni sem blandar efnunum saman á tíu mínútum, 380 sýnum í einu. 

Að því loknu er þessa blanda sett í þessi litlu tæki. Þar fara efnahvörfin fram eða greiningarprófið PCR, sem magnar erfðaefnið upp. Það tekur 80 mínútur. 

Að því loknu sést hvaða sýni hafa magnað upp veiruna og eru þau sýni þá jákvæð og eigendur þeirra sýna þá með kórónuveirusmit. 

Í Vatnsmýri eru greind öll sýni frá landamærum og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Á veirufræðideildinni í Ármúla eru greind sýni frá öðrum heilsugæslum og af sjúkrahúsunum. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Guðmundur Bergkvist - RÚV