Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Forseti Malí settur af og herinn tekur völdin

19.08.2020 - 01:46
Erlent · Afríka · Malí · Stjórnmál
epa08611367 Malians cheer as Mali military enter the streets of Bamako, Mali, 18 August 2020. Local reports indicate Mali military have seized Mali President Ibrahim Boubakar Keïta in what appears to be a coup attempt.  EPA-EFE/MOUSSA KALAPO
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Forseti Malí, Ibrahim Boubacar Keita, tilkynnti afsögn sína í nótt, nokkrum klukkstundum eftir að uppreisnarmenn úr malíska hernum hnepptu bæði hann og forsætisráðherrann Boubou Cisse í varðhald. Forsetinn tilkynnti afsögn sína í sjónvarsávarpi og sagði að ríkisstjórn hans myndi láta af völdum og þingið leyst upp án frekari tafa. Valdaránstilraunin sem Afríkubandalagið og Evrópusambandið fordæmdu í gær er því orðin að valdaráni.

„Um leið og ég þakka malísku þjóðinni fyrir stuðning hennar í gegnum þessi löngu ár, hlýju hennar og væntumþykju, vil ég á akkúrat þessu augnabliki segja ykkur frá ákvörðun minni um að láta af embætti,“ sagði forsetinn fyrrverandi.

Þvingaður til afsagnar

Talið er víst að Keita, sem var endurkjörinn fyrir tveimur árum, hafi verið þvingaður til afsagnar. Vopnaðar hersveitir fóru að embættisbústað hans í höfuðborginni Bamako í gær á brynvörðum bílum og fluttu hann nauðugan í herstöð skammt utan borgarinnar, þar sem hann var hafður í haldi ásamt forsætisráðherranum Cisse. Eftir það heyrðist ekkert frá honum fyrr en hann sagði af sér í beinni útsendingu.

Afríkubandalagið, Evrópusambandið og frönsk stjórnvöld fordæmdu valdaránstilraunina í gærkvöld. Það gerðu samtök Vestur-Afríkuríkja einnig, og boðuðu refsiaðgerðir. Mikil ólga hefur verið í Malí síðustu misseri vegna meintrar spillingar og óstjórnar í valdatíð Keitas og háværar raddir voru  uppi um umfangsmikil kosningasvik þegar hann var endurkjörinn 2018. Hefur afsagnar hans verið krafist um nokkurt skeið, en allra síðustu vikur hefur þó fækkað nokkuð í hópi mótmælenda.  

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV

Tengdar fréttir