Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Skrítið að vera í meters fjarlægð — kynnast á netinu

18.08.2020 - 18:50
Mynd: Hólmfríður Dagný Friðjónsd / RÚV
Nýnemar í framhaldsskóla segja skrítið að þurfa að halda meters fjarlægð í skólum. Fjarnám að hluta verði krefjandi en þau kynnist betur í gegnum samfélagsmiðla. Sumum skólum hefur verið skipt upp í sóttvarnarhólf og kennararnir eiga fullt í fangi með að spritta stóla og borð eftir hvern tíma.

Skrítið og leiðinlegt að hefja menntaskóla í fjarnámi

Skólahald í framhaldsskólum hefst þessar mundir og er með óvenjulegu sniði. Nýnemavikur eru ýmist rafrænar eða háðar fjarlægðartakmörkunum. Í Verslunarskóla Íslands voru í dag haldnar fimm nýnema kynningar með eins metra millibili. 

Hvernig er að byrja í skólanum við þessar aðstæður? „Það er mjög skrítið og leiðinlegt að enda 10. bekk á COVID og byrja aftur í menntaskóla strax aftur í fjarnámi. Mér finnst persónulega erfiðara að læra í fjarnámi,“ segir Birta Dís Magnúsdóttir, nýnemi. 

Fjarnámið geti verið krefjandi

Skólameistari býst ekki við að fjarkennslan hafi mikil áhrif á námsárangur. Nemendur mæta annaðhvort fyrir eða eftir hádegi í skólann og eru þess á milli í fjarnámi. „ Það er að fara að vera svolítið pirrandi sko að byrja, maður fær ekki að mæta í alla tímana og maður veit ekki alveg hvernig þetta á eftir að vera,“ segir Jón Helgi Guðmundsson, nýnemi.

Haldið þið að það verði erfitt að vera í fjarnámi hálfan daginn? „Já, krefjandi fyrst alla vega,“ segir Tinna Rakel Jónsdóttir.

Kynnast í gegnum samfélagsmiðla

Teljið þið að það verði erfitt að kynnast? „Já, erfiðara þar sem bekknum er skipt í tvennt, það verður erfiðara að kynnast hinum helmingnum. Svo erum við öll í eins metra fjarlægð. Það er svolítið skrítið,“ segir Tinna jafnframt.

„Ég held að samfélagsmiðlarnir séu alveg að slá í gegn núna. Við kynntumst í gegnum samfélagsmiðla,“ segir Eva Lilja Bjarnadóttir, nýnemi.

„Ég er farinn að búa mig undir að það verði skrítin útskrift í vor líka, maður veit ekki hvernig hlutirnir þróast,“ segir Ingi Ólafsson, skólameistari Verslunarskóla Íslands.

Borgarholtsskóla skipt í sóttvarnarhólf

Kennsla hófst í Borgarholtsskóla í morgun. Byggingunni hefur verið skipt upp í sjö sóttvarnarhólf. „Skiptum nemendum niður eins og byggingavöruverslanir og margar verslanir hafa gert. Ef þú ert að fara í þessa stofu, þá notar þú þennan inngang, þarft að fara út úr þessu hólfi og spritta þig til að komast inn í annan tíma,“ segir Ásta Laufey Aðalsteinsdóttir, aðstoðarskólameistari Borgarholtsskóla.

Með tvö hópa í skólanum og einn í tölvunni 

„Þetta er hluti af því að vera kennari á tímum COVID, þrífa eftir einn hóp. Sótthreinsa sjálfan sig á milli. Ég er búin að vera með tvo hópa, í sitt hvorri stofunni og einn í tölvunni. Af því við erum bara með nýnema í skólanum,“ segir Þórunn María Örnólfsdóttir,  framhaldsskólakennari.