Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Nýjar reglur á landamærum taka gildi á miðnætti

18.08.2020 - 23:59
Mynd: RÚV / RÚV
Einn af hverjum fimm farþegum sem áttu bókað flug með Icelandair á morgun hefur afbókað ferð sína. Eftir miðnætti í kvöld þurfa nær allir sem hingað koma að fara í sóttkví.

Allir farþegar sem koma til Íslands frá og með miðnætti í kvöld geta valið á milli þess að fara í tvær sýnatökur vegna COVID-19 með 5 daga sóttkví á milli þar til niðurstaða seinni sýnatöku liggur fyrir, eða sleppa sýnatöku og sitja í 14 daga sóttkví frá komunni til landsins.

Börn fædd árið 2005 eða síðar eru undanþegin og einnig þeir sem íslensk heilbrigðisyfirvöld hafa staðfest með sýnatöku að hafi áður fengið COVID-19 og lokið einangrun, eða ef það hefur verið staðfest með mótefnamælingu. Þá sleppa einnig tengifarþegar sem fara ekki út fyrir landamærastöðina. 

Allir þurfa að fylla út eyðublað fyrir komuna til landsins, með samskiptaupplýsingum, tilgreiningu fyrri dvalarstaða, hvar þeir ætla að vera í sóttkví og upplýsingar um heilsufar.  

Mikið um afbókanir

22 vélar eiga að lenda á Keflavíkurflugvelli á morgun, þar af tíu frá Icelandair. Samkvæmt upplýsingum þaðan hóf áhrifa á bókanir að gæta strax um síðustu helgi eftir að tilkynnt var um nýju reglurnar. Fólk flýtti för sinni til þess að komast til landsins áður en þær tækju gildi. 

Birna Einarsdóttir, framkvæmdastjóri sölu- og þjónustusviðs Icelandair, segir aðeins of snemmt að segja til um nákvæmlega hver mikil áhrifin verði af hertum reglum verði á farþegafjölda. Þó hafa minnst 20 prósenta þeirra sem áttu bókað flug á morgun, afbókað nú þegar.

Hún býst við því að hlutfallið eigi eftir að hækka, ýmist afbóki margir á síðustu stundu eða mæti hreinlega ekki í flugið eins og gerðist í mars og apríl. Upplýsingafulltrúi ISAVIA segist ekki hafa fengið upplýsingar um að flugfélög hafi aflýst flugferðum enn sem komið er.