Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Grímuskylda á flestum frönskum vinnustöðum

18.08.2020 - 19:51
epa08609485 French President Emmanuel Macron and his wife Brigitte Macron take part in a ceremony marking the 76th anniversary of the Allied landings in Provence in World War II which helped liberate southern France, in Bormes-les-Mimosas, France, 17 August 2020.  EPA-EFE/ERIC GAILLARD / POOL  MAXPPP OUT
Emmanuel Macron Frakklandsforseti og forsetafrúin Brigitte Macron með andlitsgrímur í heimsók í Province. Mynd: EPA-EFE - REUTERS POOL
Yfirvöld í Frakklandi ætla að koma á grímuskyldu á flestum vinnustöðum. Reglurnar, sem verða kynntar á næstunni, munu taka gildi 1. september og eru til komnar vegna fjölgunar kórónuveirutilfella í landinu.

Breska ríkisútvarpið BBC greinir frá og segir þá vinnustaði þar sem starfsmenn séu með sína eigin skrifstofu vera undanskilda grímukröfunni.

Andlitsgrímur eru nú þegar notaðar víða í Frakklandi, en smittilfellum hefur farið hratt fjölgandi frá því í síðasta mánuði. Yfir 2.000 ný tilfelli greinast nú að jafnaði daglega og eru það helmingi fleiri tilfelli en greindust að meðaltali í upphafi mánaðarins.

Um 220.000 manns hafa nú greinst með COVID-19 í Frakklandi og rúmlega 30.000 manns hafa látist af völdum veirunnar.

Heilbrigðisyfirvöld í Frakklandi telja að um fjórðungur allra nýrra smitkjarna tengist vinnustöðum sem eru utan heilbrigðisgeirans, en stjórnvöld í landinu hafa undanfarið hvatt Frakka til að snúa aftur til vinnu til að vinna á 11% fjárlagahalla þessa árs.

Frakkland er eitt þeirra ríkja Evrópu sem beitti hvað hörðustum aðgerðum gegn kórónuveirunni í fyrstu bylgju faraldursins og hafa þær verið afnumdar í skrefum frá því í byrjun maí.

Eftir að tilfellum tók að fjölga á ný í júlí gerðu yfirvöld grímunotkun að skyldu á almannafæri innandyra. Nokkrar borgir hafa þó gengið lengra og fyrirskipað líka grímunotkun á fjölmennum stöðum utandyra.

Þar til nú hafa frönsk stjórnvöld hins vegar ekki mælt með grímunotkun við vinnu, nema ekki sé hægt að viðhalda fjarlægðartakmörkum.