Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Þúsundir mótmæltu taílenskum stjórnvöldum

17.08.2020 - 00:24
Erlent · Asía · Taíland
epa08606732 People flash the three-finger salute as they gather for an anti-government protest at the Democracy Monument in Bangkok, Thailand, 16 August 2020. Thousands of anti-government protesters gathered to protest against Thailand's royalist elite and the military-backed government calling for political and monarchy reforms.  EPA-EFE/DIEGO AZUBEL
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Yfir tíu þúsund komu saman í Bangkok, höfuðborg Taílands í dag til þess að mótmæla ríkisstjórn Prayuth Chan-och. Mótmæli gegn stjórn hans hafa staðið yfir í nærri mánuð. Þess er krafist að breytingar verði gerðar á stjórnarskránni, hætt verði að níðast á þeim sem gagnrýna stjórnvöld og þá vilja mótmælendur að úrbætur verði gerðar á konungsveldinu.

Þessi síðasta krafa er einkar viðkvæm, því 18 mánaða til fimmtán ára fangelsi bíður þeirra sem voga sér að gagnrýna konungsveldið. Mótmælendurnir krefjast þess einnig að forsætisráðherrann, sem komst til valda eftir valdarán hersins árið 2014, segi af sér. 

Mótmælendur kölluðu eftir niðurrifi einræðis í landinu. Meðal þeirra sem kvað sér hljóðs var aðgerðarsinninn Parit Chiwarak, sem var stungið inn á dögunum fyrir ákall sitt um lýðræði í landinu. Hann var nýverið leystur úr haldi gegn tryggingagjaldi.

Mótmælaaldan sem nú ríður yfir Taíland hófst í febrúar. Þá úrskurðaði dómari að stjórnmálaflokkurinn Fram til framtíðar yrði leystur upp. Flokkurinn sækist eftir auknu lýðræði í Taílandi. Kórónuveirufaraldurinn hægði á mótmælunum í vor.

Valdarán hafa ítrekað verið framin í Taílandi eftir að herinn tók völdin í konungdæminu árið 1932. Þá var skipt úr einveldi konungsstjórnarinnar yfir í þingbundna konungsstjórn. 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV