Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Hádegisfréttir: Hegðun ráðherra óheppileg

17.08.2020 - 12:12
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra segir að hegðun ferðamálaráðherra á laugardag hafi verið óheppileg. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir fór með vinkonum sínum út að borða og í búðir á Laugaveginum. Þórdís sagði á Facebook í gær að þetta hefði verið langþráður frídagur með æskuvinkonum, hann hafi verið nærandi og hún hafi hlakkað til. Þær hafi ekki farið út á lífið.

Hádegisfréttir verða sagðar klukkan 12:20.

Tvö ný kórónuveirusmit greindust innanlands í gær. Upplýsingafundur almannavarna verður að venju klukkan tvö í dag. Þar munu Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir og Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn fara yfir stöðuna, og Ólöf Snæhólm Baldursdóttir upplýsingafulltrúi Veitna verður gestur fundarins, en á miðnætti verður skrúfað fyrir heita vatnið á stórum hluta höfuðborgarsvæðisins vegna tenginga.

Óvenju mikil bráðnun á Grímsfjalli varð til þess að GPS-mastur fór að halla og gaf falskar niðurstöður um yfirvofandi hlaup. Vísindamenn telja þó von á eldgosi í Grímsvötnum á næstunni.

Meindýraeyðir á Akureyri segir mikið meira um kvartanir vegna bitmýs en áður og lúsmýið sé komið til Akureyrar. Flugurnar séu komnar til að vera en það sé stutt eftir af tímabili lúsmýsins í ár. 

Færeyskur læknir hvetur þarlend stjórnvöld til að fara að dæmi Íslendinga og senda ferðamenn til eyjanna í sóttkví meðan beðið er niðurstöðu seinni kórónuveiru-skimunar. 

Næsti fundur í kjaradeilu Sjómannafélags Íslands og útgerðarfélags Herjólfs verður haldinn á morgun. Þegar verkfalli var aflýst í síðasta mánuði var stefnt að því að samningur lægi fyrir í dag.

Karlaliði KR í fótbolta liggur á annað kvöld að komast til Íslands fyrir miðnætti. Annars vofir yfir liðinu 5-6 daga sóttkví. KR sækir skoska liðið Celtic heim í forkeppni Meistaradeildar Evrópu annað kvöld. 

Frettir's picture
Fréttastofa RÚV